Hvetja fólk til að takmarka ferðir á bráðamóttöku

Heilsugæslan höfuðborgarsvæðisins biðlar til fólks að leita til Upplýsingamiðstöðvar heilsugæslunnar …
Heilsugæslan höfuðborgarsvæðisins biðlar til fólks að leita til Upplýsingamiðstöðvar heilsugæslunnar eða til heilsugæslustöðva vegna veikinda eða smáslysa. mbl.is/Árni Sæberg

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins biðlar til fólks með bráð erindi til að leita til upplýsingamiðstöðvar heilsugæslunnar áður en haldið er á bráðamóttöku eða heilsugæslu vegna veikinda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Álagstími á bráðamóttöku

Þessi hvatning kemur í kjölfar mikils álags á bráðaþjónustu Landspítalans og hjá helstu aðilum sem veita heil­brigðisþjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu og á heil­brigðis­stofn­un­um í Krag­an­um en mikill fjöldi fólks hefur leitað þangað yfir hátíðirnar vegna veikinda. 

Hægt er að hafa samband við upplýsingamiðstöðina í síma 513-1700 eða síma 1700 til að fá aðstoð frá heilbrigðisstarfsfólki ásamt ráðgjöf og leiðbeiningum. Þá er einnig hægt að hafa samband við heilsugæslustöð beint í síma og í gegnum netspjall á vef Heilsuveru. 

Í tilkynningunni er jafnframt minnt á að heilsugæslustöðvar veita bráðaþjónustu vegna veikinda eða smáslysa. Hægt er að nýta sér þá þjónustu án þess að panta tíma og eru heilsugæslustöðvar opnar á milli klukkan 8 og 17 alla virka daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert