Óvenju erfiðir dagar á spítalanum

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, segir að ráða verði úr vanda …
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, segir að ráða verði úr vanda spítalans. mbl.is/Arnþór

Metfjöldi var lagður inn á Landspítala á öðrum degi jóla, alls 47 manns en 40 biðu innlagnar morguninn eftir þar sem þeir komust ekki í rúm á deildum. Álag er mikið á spítalanum um þessar mundir vegna ýmissa veirusýkinga, svo sem inflúensu, RS-veiru og Covid-19.

„Þetta hafa verið óvenjulega erfiðir dagar um jólin og síðustu daga. Álagið á bráðamóttökunni hefur verið mikið og við höfum verið að bregðast við því innanhúss með ýmsum úrræðum,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala. 

Hlutfall innlagna af bráðamóttöku á legudeildir Landspítala er yfirleitt í kringum 15% en á annan í jólum var hlutfallið 31%.

47 voru lagðir inn á spítala annan í jólum.
47 voru lagðir inn á spítala annan í jólum. mbl.is/Hákon

Ný legudeild sett á fót

Gripið hefur verið til þess að setja á fót nýja legudeild til þess að fjölga bráðalegurýmum, svo hægt sé að mæta þeim mikla fjölda fólks sem leitar á spítalann. 

„Að hluta til stafar það af því að úrræði í þjónustu við aldraða hér á höfuðborgarsvæðinu eru ófullnægjandi. Á hverjum tíma vistast á Landspítala til lengri tíma fjöldi aldraðra einstaklinga sem eru bíða eftir öðrum úrræðum,“ segir Runólfur. Plássleysi á Landspítalanum er ekki nýtt af nálinni og eru vonir bundnar um að nýr Landspítali á Hringbraut muni létta undir.

Legurýmin fullnýtt og enn skortur á starfsfólki

„Skortur á legurými á Landspítala er vel þekkt vandamál sem hefur takmarkað okkar svigrúm til að mæta auknu álagi og þess vegna veldur það miklum erfiðleikum þegar svona aðstæður skapast. Af þeim sökum höfum við brugðist við með því að fjölga legurýmum tímabundið,“ segir Runólfur og bætir við að það sé ekki auðvelt því spítalinn glími einnig við manneklu, sérstaklega í röðum hjúkrunarfræðinga.

Heil­brigðisráðuneytið fundaði í gær með full­trú­um Land­spít­ala og helstu aðilum sem veita heil­brigðisþjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu og á heil­brigðis­stofn­un­um í Krag­an­um vegna álags á bráðaþjón­ustu þessa dag­ana.

„Með samráði við heilbrigðisyfirvöld er unnið að viðbrögðum við þessum vanda sem miða að því að skapa aukin úrræði fyrir aldraða sem hafa misst færni og þurfa að vistast á stofnun. Það skapar okkur á Landspítala fleiri opin legurými.“Nýting legurýma sé um 100% og því ærið verk fyrir höndum.

„Það er færni og útsjónarsemi starfsfólksins sem skipt hefur sköpum.“ 

Samfélagið búi líklega yfir minna ónæmi

Fjöldi veirusýkinga herjar á þjóðina um þessar mundir, sem veldur álagi á bráðamóttökunni eins og fyrr segir. Blanda af sýkingum veldur álaginu, þar á meðal sýkingar í öndunarfærum, RS-veira og Covid-19.

„Við óttuðumst að ýmsar veirusýkingar, einkum inflúensu, kynnu að verða meira áberandi í ár. Það bar minna á þessum sýkingum undanfarin ár á meðan heimsfaraldur Covid-19 geisaði svo samfélagið býr líklega yfir minna ónæmi. Þá er hætt við að dreifingin verði meiri í samfélaginu og skapar það hættu á að þessar sýkingar berist í viðkvæma hópa fólks sem hefur tilhneigingu til að veikjast illa.“ 

Í lokin segir Runólfur að hann bindi vonir um að viðbrögð spítalans við aukinni ásókn þangað muni skila sér. 

„Það þarf að leysa legurýmisvanda spítalans til frambúðar. Það tekur tíma en heilbrigðisráðuneytið er að vinna að því að skapa tímabundin úrræði fyrir aldraða sem eru að bíða eftir hjúkrunarrými. Að hluta til hefur það þegar haft jákvæð áhrif þótt það dugi ekki til. En það verður unnið markvisst að þessu áfram.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka