Appelsínugul viðvörun gefin út fyrir morgundaginn

Appelsínugul viðvörun tekur gildi klukkan sjö á morgun.
Appelsínugul viðvörun tekur gildi klukkan sjö á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna hvassviðris og mikillar snjókomu á Suðurlandi á morgun. Viðvörunin tekur gildi klukkan 7 um morguninn og gildir til klukkan 15. Þá hefur bæst við gul viðvörun í höfuðborginni á nýársnótt.

Þetta kemur fram á vefsíðu Veðurstofu Íslands.

Reiknað er með þrettán til tuttugu metrum á sekúndu og talsverðri snjókomu fyrst á Reykjanesi en síðar við Suðurströndina og undir Eyjafjöllum fyrir hádegi. Hvassast verður við ströndina og til fjalla. 

Reikna má með skafrenningi, lélegu skyggni og ófærð en veðrinu ætti að lægja nokkuð með deginum.

Gul viðvörun í höfuðborginni á nýársnótt

Jafnframt hefur verið gefin út gul viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið, Breiðafjörð og Vestfirði en þar má reikna með austan hvassviðri og hríð frá klukkan tvö um nótt til hádegis. Viðvörunin er lengur í gildi á Vestfjörðum en hún gildir til klukkan sex um annað kvöld.

Varað er við tíu til fimmtán metrum á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu til hádegis. Aftur byrjar að hvessa laust fyrir miðnætti á höfuðborgarsvæðinu. Einnig bendir veðurstofan á að versnandi akstursskilyrði verða með deginum sökum skafrennings og lélegs skyggnis. 

Gul viðvörun tekur svo aftur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 23 laugardagskvöld og er í gildi til klukkan 12 nýársdag. Þá er reiknað með vestan hvassviðri að vindhraða þrettán til átján metrar á sekúndu og éljagangi. Búast má við samgöngutruflunum á nýársdag og slæmum akstursskilyrðum.

Vegagerðin hefur nú þegar varað við mögulegum lokunum á vegum á Suðurlandi sökum veðurs. Þar kemur fram að reikna megi með slæmri færð á gamlársdag.

Veðurstofan biðlar til fólks að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám á gamlársdag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert