Skynsamlegt að komast heim fyrir miðnætti

„Lægðin sendir okkur vestanstreng seint annað kvöld og þá verður ansi hvasst. Þá fer nýfallinn snjórinn af stað og það skefur,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sem telur mannaferðir á höfuðborgarsvæðinu ekki skynsamlegar eftir miðnætti á höfuðborgarsvæðinu á morgun.

Einar segir morgundaginn líta betur út en upphaflega á horfðist en tekur þó fram að erfitt ferðaveður verði í morgunsárið og eftir klukkan tíu annað kvöld. Hann segir að mögulega geti áramótin farið fram með hefðbundnum hætti með brennum og flugeldum en það myndi líklegast ekki ganga eftir klukkan tíu þegar það fer að hvessa. 

Ágætis veður yfir daginn

„Það verður eitthvað minna úr þessari lægð á höfuðborgarsvæðinu en samt sem áður verður bylur um tíma. Það verður ágætis veður yfir daginn á morgun og birtutímann.“

Aðspurður tekur hann fram að skynsamlegt sé að vera kominn heim fyrir miðnætti á gamlárskvöld þar sem líkur er á að víða verði ófært á nýársnótt og erfitt að komast á milli staða.

Hann bendir þó á að mesti vindurinn verði í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu og því atviksbundið hversu slæm færðin verður.

Hér má sjá hvernig veðrið þróast á höfuðborgarsvæðinu á morgun …
Hér má sjá hvernig veðrið þróast á höfuðborgarsvæðinu á morgun samkvæmt veðurspá Einars. Reiknað er með miklum vindi eftir miðnætti og til klukkan níu nýársmorgun. Ljósmynd/Aðsend


Verra á Suðurlandi og Reykjanesi

Hann segir að veðrið muni vera skárra á höfuðborgarsvæðinu en á Suðurlandi og Reykjanesinu. Hann segir að reikna megi með meiri vind og meiri snjókomu á þeim slóðum.

Hann segir þá að áhugavert verði að fylgjast með hvaða áhrif veðrið muni hafa á Reykjanesbrautina og bendir á margar flugferðir eru áætlaðar á nýársmorgun.

„Það verður mikill snjór um Hellisheiði og Þrengslin á nýársdag og sama á við um sveitirnar hérna fyrir austan,“ segir hann og bætir við að tíminn muni leiða í ljós hversu ófært verður.

Eins og sjá má er reiknað með töluvert meiri snjókomu …
Eins og sjá má er reiknað með töluvert meiri snjókomu á Suðurnesjum og verður hvassviðrið meira sömuleiðis. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert