Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að samtal um innleiðingu rafvarnarvopna lögreglu þurfi að eiga sér stað innan ríkisstjórnarinnar og þingsins.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag greindi Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra frá ákvörðun sinni að hefja undirbúning að því að taka í notkun rafvarnarvopn.
Í samtali við mbl.is segir Katrín að hún hafi rætt við Jón í morgun þar sem kom fram að hann muni leggja fram minnisblað um málið á ríkisstjórnarfundi eftir áramót.
„Auðvitað þarf hann að kynna hana [ákvörðunina] fyrir ríkisstjórn þó hún heyri stjórnskipunarlega undir hann. Þetta er stórt mál. Mitt mat er líka það að svona mál ætti að bera undir þingið. Það rímar við afstöðu minnar hreyfingar, til dæmis hvað varðarlögreglulögin. Við höfum einmitt bent á að það sé mikilvægt er kemur að reglum um vopnaburð sé eðlilegt að eiga samtal við þingið af því þetta eru auðvitað stórar breytingar.“
Katrín segir að enginn vafi leiki á því að málið heyri undir dómsmálaráðuneytið þar sem um sé að ræða reglugerðarbreytingu.
„Þegar um er að ræða svona mál finnst mér eðlilegt að það sé rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar og tekið samtal við þingið líka.“
Hún segir að málið hafi ekki verið rætt sérstaklega á síðustu fundum ríkisstjórnarinnar.
Katrín nefnir að margir innan lögreglunnar hafa kallað eftir þessum breytingum lengi vegna þess að vopnaburður virðist vera orðin almennari en áður.
„Það er mjög mikilvægt, ef þessar breytingar eiga að verða, að vel sé búið um þær og vandað til verka þegar kemur að verklagsreglum. Eins að það sé mjög skýrar eftirlitsheimildir með notkun slíkra vopna.“
Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður Menntaseturs lögreglunnar og fulltrúi í framkvæmdastjórn Embættis ríkislögreglustjóra, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að miðað við að reglunum verði breytt núna og allt gangi að óskum gæti liðið allt að hálft ár áður en íslenskir lögreglumenn fara að nota rafvarnarvopn, gangi útboð um kaup á vopnunum greiðlega.
„Ég vil líka minna á að það liggja fyrir breytingar á lögreglulögum í þinginu sem eru ekki gengnar í gegn,“ segir Katrín og bætir við að afstaða hennar er að það þurfi að efla eftirlit með störfum lögreglu.
„Sú breyting er auðvitað ekki gengin í gegn, þannig að mér finnst að það þurfi að liggja fyrir hvernig þessu verður háttað.“