Áramótabrennur verða leyfðar á öllu höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Þetta staðfestir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Lögreglan og slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu funduðu með brennustjórum og veðurfræðingi klukkan tíu í morgun.
„Miðað við niðurstöðu fundar verður heimilt að tendra í brennum í kvöld,“ segir Árni.
Aðeins er leyfilegt að halda áramótabrennu ef vindhraði fer ekki yfir tíu metra á sekúndu og samkvæmt spá Veðurstofunnar á það ekki að gerast fyrr en upp úr miðnætti.
„Slökkviliðið er í góðu sambandi við brennustjóra og ef spáin breytist ber mönnum að endurskoða þessa ákvörðun, en eins og staðan er núna þá er þetta heimilt.“
Árni tekur fram að þau sem hyggjast sækja brennur í kvöld séu beðin um að fara varlega.
„Það er vetrarfærð, snjór og hálka og fólk þarf að gæta sín.“