Gullaldaríslenskan deyr út

Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri.
Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri, er nokkuð viss um að gullaldaríslenskan deyr út og verði aðeins til í bókum. Það að lesa Arnald Indriðason eftir 50 ár verði eins og fyrir nemendur núna að lesa Laxness eða jafnvel Íslendingasögurnar.

„Ég var að lesa nýjustu bók Arnaldar og á einni blaðsíðu sá ég býsna mörg venjuleg en frekar gamaldags orð og hugsaði með mér: Nei, þetta skilja nemendur ekki! Þannig að íslenskan með öllum sínum sveigjanleika og fjölbreytileika deyr út og einsleitnin verður meiri. Við hættum með allskonar fjúk, skafrenning og hundslappadrífur og þetta verður allt einn snjóstormur,“ segir hann.

Litla sæta tungumálið

Að því sögðu er Stefán Þór ekki svartsýnn fyrir hönd íslenskunnar sem hluta af sjálfsmynd þessarar þjóðar. „Við munum áfram yrkja ljóð og texta og semja á íslensku. Þáttur tónlistarinnar verður mikill sem fyrr og við höldum áfram að vera heimsfrægir rithöfundar og krúttleg álfaþjóð með þetta litla sæta tungumál sem mun fleiri en við brenna fyrir að verði áfram til og muni varðveitast. Það þykir merkilega mörgum vænt um íslenskuna og ég vona að það skili árangri.“

Fyrirmynd annarra landa

Fjallað er um stöðu íslenskrar tungu í Tímamótum, áramótablaði Morgunblaðsins. Þar kemur meðal annars fram að hratt hafi verið brugðist við þróun máltæknilausna hér á landi. „Raunin er sú að framkvæmdin á Íslandi er orðin fyrirmynd í mörgum öðrum löndum, enda er raunveruleg hætta á því að stór hluti tungumála heimsins glatist,“ segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, sem hefur það hlutverk að tryggja að íslensk tunga sé notuð í allri tækni.

„Máltækni er það svið þar sem nýting gervigreindar er komin einna lengst. Til að nýta gervigreind þarf verulegt magn gagna og þau eru meðal annars virkjuð með máltækni. Þetta er ákveðin hringrás sem kom til í miðju þróunarferlinu hér á landi og við höfum lagað okkur að því og í raun tekist að vera ansi framarlega. Hér er gríðarlega mikilvægt að bregðast hratt við en líka muna að það sem við höfum gert undanfarin þrjú ár er uppbygging innviða fyrir notkun tungumálsins í nýrri tækni. Máltæknilausnirnar eru því eins konar vegakerfi tungumálsins og munu tryggja framtíð þess,“ segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir.

Nánari umfjöllun er að finna í Tímamótum, áramótablaði Morgunblaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert