Stór hópur fólks kom saman við Skerjafjörð í kvöld að ylja sér við loga áramótabrennunnar eins og hefð er fyrir. Brennustjóri telur íbúa fegna að fá gamlársbrennuna aftur eftir tveggja ára langa Covid-pásu en sagði að örlögum brennunnar hafi aftur stefnt í tvísýnu í ár af öðrum ástæðum.
Allt gekk þó eftir og brennustjóri var brattur þegar blaðamann bar að garði. Hákon Ólafsson er enda með áratugareynslu í bransanum en hann sagði efnisskort og vindátt hafa verið helstu ógnina þetta árið.
Prýðifélagið Skjöldur stendur árlega fyrir því að íbúar safnist saman í blysför og ganga að brennunni með logandi kyndla í gegnum hverfið og kveikja upp í brennunni.
„Það er mikilvægt menningaratriði að halda brennunni í Skerjafirðinum,“ segir Hákon sem hefur stýrt brennunni um áratugaskeið.
Að hans mati er lykilinn að góðri brennu úrvalsefnivið en segist spurður eiga erfitt að segja til um hvar sé best að fá slíkt.
„Við fengum loforð fyrir góðu efni en svo tveimur dögum síðar var gengið til baka og sagt að við fengjum ekkert efni, svo við vorum í vandræðum á tímabili,“ segir Hákon sem náði þó að gera allt tilbúið í tæka tíð, eins og honum er von og vísa.
Eingöngu ómálað timbur er leyfilegt á brennum í dag en í eina tíð gat fólk sett hvers lags timbur eða pappír sem því sýndist á bálið.
Hákon segir vindáttina ráða miklu um hve vel brennan heppnist, best sé ef vindurinn blási reyknum beint á haf út, í suðvesturátt. Í kvöld því viðraði afar vel til að brenna bálköst.