Núverandi ríkisstjórn stóð sig með ágætum í glímunni við heimsfaraldurinn að mati Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar en hún gefur ríkisstjórninni ekki háa einkunn í efnahagsmálum.
„Fólkið sem hér býr má ekki við áframhaldandi ráðleysi í stærstu málaflokkum. Stefnuleysið birtist landsmönnum einna best í hringli ríkisstjórnarinnar með eigin fjármálaáætlun, fjárlög og svo breytingartillögur við eigin fjárlög á þessu ári. Það þurfti neyðaróp frá fangelsum, lögreglu og heilbrigðisstofnunum víða um land fyrir jól til að ríkisstjórnin rankaði við sér og skaffaði rétt nægilegt fjármagn til að þurfa ekki að loka mikilvægum stofnunum um áramótin,“ skrifar Kristrún meðal annars í áramótagrein í Morgunblaðinu í dag.
Varðandi Samfylkinguna segir hún flokkinn lökum árangri hafa náð í landsmálunum undanfarin áratug en ný forysta ætli sér stærri hluti og við blasi risaverkefni.
„Við höfum hlustað á fólkið í landinu og litið í eigin barm eftir lakan árangur í landsmálunum á undanförnum áratug. Við erum að innleiða breytingar í Samfylkingunni til að ávinna okkur traust almennings — því að aðeins þannig getum við leitt breytingar til hins betra í íslensku samfélagi. Risaverkefni blasir við; endurreisn velferðarkerfisins um land allt eftir áratug hnignunar og stórefling innviða til atvinnuuppbyggingar.“
Grein Kristrúnar í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag.