Óvissustigi aflýst

Óvissustigi hafði verið lýst yfir vegna slæmrar veðurspár á höfuðborgarsvæðinu, …
Óvissustigi hafði verið lýst yfir vegna slæmrar veðurspár á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi. mbl.is/Arnþór

Óvissustigi almannavarna vegna veðurs hefur verið aflýst á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Ríkislögreglustjóri tók þessa ákvörðun í samráði við lögreglustjórana á Suðurlandi, Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu. 

Óvissustigi hafði verið lýst yfir vegna slæmrar veðurspár á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi. Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð klukkan þrjú í nótt, en henni var lokað klukkan eitt í dag. 

Éljagangur í kortunum

Næsta sólarhring er spáð breytilegri átt 3 til 10 metrar á sekúndu, en norðaustan 10 til 15 metrar á sekúndu á Vestfjörðum. 

Snjókoma eða él verður í flestum landshlutum og búast má við að það gangi norðvestan10 til 18 m/sekúndu á vestanverðu landinu í nótt með éljum. 

Á morgun verður norðlæg átt ríkjandi, 5 til 13 metra á sekúndu, og él, en við tekur vestlægari átt eftir því sem líður á daginn. Frost verður víðast hvar á bilinu 3 til 13 stig. 

Ferðamenn fylgist með

Ferðamenn eru hvattir til að fylgjast vel með vefsíðu vegagerðarinnar og veðurvefsins, áður en farið er af stað. 

Almannavarnir þakka landsmönnum öllum fyrir árið sem er að líða með von um rólegheitarár sem hefst á miðnætti.  Árið sem hófst í enn einni covidbylgjunni og endaði með hvelli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert