Borgarstjórnarkosningar snerust um fólk frekar en málefni og þegar Einar Þorsteinsson tekur við borgarstjóraembætti þarf hann að taka til við að skera burt fitu úr borgarkerfinu, fjárhagsstaðan kallar á það.
Þetta segir Karítas Ríkharðsdóttir blaðamaður í áramótaþætti Dagmála, þar sem farið var yfir stjórnmálin á árunu sem er að líða og nöturlegar staðreyndir í fjárhag borgarinnar bárust í tal.
„Hann hefur ýmsa fitu til að skera,“ segir Karítas. „Ég hef ákveðinn grun um að hann vilji og ætli sér að gera það. Það er eitt skot í byssunni. Hann verður eiginlega að taka þessi tvö og hálfa ár, sem hann á á borgarstjórastóli og gera eitthvað við það. Það eins sem hann getur gert er að taka til í rekstrinum.“
Stefán Einar Stefánsson blaðamaður er meira efins. „Ég er hræddur um að það hafi verið eitt skot í byssunni og hann hafi notað það til þess að skjóta sig í fótinn.“
Stefán tekur fram að Einar hafi verið ærlegur og viðurkennt ýmis mistök sem gerð hafi verið í stjórn borgarinnar. „En nú verður Einar borgarstjóri seint og um síðir, þegar hann hefði sennilega getað orðið borgarstjóri strax. Í stað þess að taka við hreinu borði og segja að nú þurfi að hreinsa upp eftir þessa óráðsíu, þá er hann með óráðsíuliðið á bakinu. Hann mun ekki getað tekið jafnákveðið á málunum með Dag B. Eggertsson, með Alexöndru Briem og með Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur andandi ofan í hálsmálið á honum.“
Um margt fleira var fjallað í sérstökum áramótaþætti Dagmála í tvöfaldri lengd, þar sem Andrés Magnússon fékk þrjá kollega af blaðinu, þau Gísla Frey Valdórsson, Karítas og Stefán Einar, til þess að ræða árið sem er að líða á vettvangi stjórnmálanna. Þar á meðal eru sveitarstjórnarkosningar, efnahagsmál, bankasölumálið, óviðurkvæmileg ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, forystuskipti í Samfylkingunni og formannskjör í Sjálfstæðisflokki, þrengingar á fjölmiðlamarkaði, öryggis- og varnarmál, kjaramál og umbrot í verkalýðshreyfingu.
Dagmál eru streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opin eru öllum áskrifendum. Áramótaþáttinn má sjá í heild sinni hér.