Umboð verkalýðsforystunnar veikt

Verkalýðshreyfingin er í heljargreipum nokkurra forystumanna, sem láta stýrast af persónulegum metnaðarmálum fremur en hagsmunum launþega. Hins vegar sé umboð þeirra veikt. Þetta er meðal þess sem rætt er í áramótaþætti Dagmála.

Vandræði Alþýðusambandsins eru til dæmis um þetta en þess gætir víðar. „Nýr formaður Starfsgreinasambandsins er leiddur til valda og er núna orðinn umboðslaus og undir hótunum frá langstærsta félaginu innan starfsgreinasambandsins,“ nefnir Stefán Einar Stefánsson blaðamaður í áramótaþætti Dagmála.

Undir þetta tekur Gísli Freyr Valdórsson kollega hans. „Í samningum Starfsgreinasambandsins þá kjósa 16% félagsmanna í sambandinu. Í samningum VR, sem formaður VR þorði hvorki að mæla með né tala gegn, taka 24% félagsmanna VR þátt,“ segir Gísli Freyr Valdórsson og tekur undir orð Stefáns.

„Sólveig Anna [Jónsdóttir í Eflingu] og Ragnar Þór [Ingólfsson í VR] eiga sér mjög fáa fylgjendur. Það eru fáir að taka undir þeirra málstað og fylgja þeim í einhverri vegferð sem enginn veit hvar endar. En það fer allur tíminn í að ræða þetta […] og einhverja úrelta frasa um öreiga og kapítalið. Þetta er allt einhver tóm þvæla,“ bætir Gísli Freyr við.

Um margt fleira var fjallað í sérstökum áramótaþætti Dagmála í tvöfaldri lengd, þar sem Andrés Magnússon fékk þrjá kollega af blaðinu, þau Gísla Frey, Karítas Ríkharðsdóttur og Stefán Einar, til þess að ræða árið sem er að líða á vettvangi stjórnmálanna. Þar á meðal eru sveitarstjórnarkosningar, efnahagsmál, bankasölumálið, óviðurkvæmileg ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, forystuskipti í Samfylkingunni og formannskjör í Sjálfstæðisflokki, þrengingar á fjölmiðlamarkaði, öryggis- og varnarmál, kjaramál og umbrot í verkalýðshreyfingu.

Dagmál eru streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opin eru öllum áskrifendum. Áramótaþáttinn má sjá í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert