„Vandmeðfarið að setjast við kjarasamningaborðið“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segir í áramótagrein í Morgunblaðinu í dag að skynsamlegt hafi verið að semja til skemmri tíma á vinnumarkaði.

Hún lýsir ánægju sinni með að tekist hafi að semja og það sé vandmeðfarið að setjast við samningaborðið um þessar mundir.

„Það var vandmeðfarið að setjast við kjarasamningaborðið á þessum tímapunkti fyrir bæði verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur. Sú skynsamlega ákvörðun var tekin að semja til skemmri tíma og var það forysta Starfsgreinasambandsins sem braut ísinn þegar hún skrifaði undir samninga við Samtök atvinnulífsins í byrjun desember. Í kjölfarið fylgdu iðnaðarmenn, tæknifólk og verslunarmenn. Það er trú mín að aðilar vinnumarkaðarins hafi þarna stigið mikilvæg skref til að verja kjör félagsmanna sinna á óvissutímum,“ segir Katrín meðal annars í greininni og segir stjórnvöld hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar. 

Nýtt og endurbætt barnabótakerfi

„Stjórnvöld gerðu sitt til að greiða fyrir samningagerð með markvissum aðgerðum; auknum húsnæðisstuðningi við bæði leigjendur og eigendur og auknu framboði af hagkvæmu leiguhúsnæði á komandi árum. Þá verður stuðningur aukinn við barnafólk í landinu með nýju endurbættu barnabótakerfi sem nær til fleiri barnafjölskyldna. Verkefnið framundan er stórt og um leið mikilvægt – að leggja grunninn að langtímasamningum að ári með því að ná niður verðbólgu og vöxtum og bæta um leið lífskjör og velsæld fólksins í landinu.“

Grein Katrínar í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert