„Ekki verður öðrum kennt um allt sem miður fer“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands flutti nýársávarp í hádeginu í …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands flutti nýársávarp í hádeginu í dag. Skjáskot af Rúv

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hélt í þann sið sinn að vitna í íslenska listamenn á nýársávarpi sínu sem hann flutti á Bessastöðum og Rúv sjónvarpaði. Í ávarpinu sagði Guðni það einnig mikilvægt að fólk axli ábyrgð á eigin lífi.

Forsetinn stiklaði á stóru í ávarpinu og minntist þeirra ferðalaga og staða, innan sem og utan landsteinana, sem hann sótti heim á árinu í fylgd forsetafrúarinnar Elizu Reid. Þá þakkaði hann sérstaklega fyrir þá velvild sem þeim hjónum var sýnd á förnum vegi.

Alþjóðalög hafi sannað gildi sitt

Guðni vakti máls á mikilvægi alþjóðalaga og þeirra boðskapar sem Ísland hefur fram að færa á sviði alþjóðastjórnmála.

„Ráði hnefarétturinn er voðinn vís, það sýnir sagan og samtíð sömuleiðis. Enn geisar styrjöld í Úkraínu, eftir innrás Rússlandshers snemma á nýliðnu ári. Þótt við séum lítils megnug í slíkum ófriði höfum við lagt okkar af mörkum, tekið á móti flóttafólki og sent vistir út. Hann er lofsverður, sá einhugur sem Íslendingar hafa sýnt í stuðningi við stríðshrjáða þjóð.“

Öllum hollt að sinna eigin líkama og sál

Meginstef ávarpsins var áþekkt því sem var í fyrra þar sem forsetinn ítrekaði mikilvægi persónufrelsis, samtakamáttar og því að axla ábyrgð á eigin lífi:

Ekki verður öðrum kennt um allt sem miður fer í eigin ranni. Öllum er hollt að sinna líkama og sál en þá er fyrirtak að okkur gefist sem bestur kostur til þess. Margt hefur verið gert vel í þeim efnum og vil ég styrkja slíkt starf enn frekar.

Jákvæð teikn á lofti

Bjartsýni einkenndi ávarp forsetans sem vakti athygli landsmanna á þeim tækniframförum sem kynntar voru á árinu sem leið og benti þar sérstaklega á nýtt lyf við Alzheimer, niðurbindingu kolefnis og framfarir í þróun tækni á sviði kjarnasamruna.

Forsetinn vitnaði í fjölda íslenskra listamanna í ávarpni, þar á meðal Prins Póló, Hrafn Jökulsson og Sigurð Pálsson:

Rangsnúin fortíðarþrá getur villt fólki sýn – en það gerir óheft nýjungalof reyndar einnig, „ofsatrúin á tímans batnandi rás“ sem Sigurður Pálsson orti um af skörpu viti í Nýársljóði sínu. Snýst þetta ekki allt um jafnvægi þegar vel er að gáð, umburðarlyndi og ígrundun, hófsemi og aga, raunsæi og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum?“ spurði forsetinn í ávarpinu í dag. 

Guðni sló botninn í ávarpið með kvæði Ólafar Sigurðardóttur frá Hlöðum um frelsi, ábyrgð vellíðan og samkennd:

Gott er að vera fleyg og fær 
frjáls í hverju spori. 
Sinnið verður sumarblær, 
sálin full af vori.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert