„Skólagangan mín var ekki góð og unglingsárin voru ekki góð. Ég var mjög fljót að fara vitlausu leiðina í lífinu,“ segir Kalla Lóa Pizarro, tæplega fertug íslensk-chilesk lyftingakona sem þrælar íslenskum konum út í fjarþjálfun frá Orihuela Costa á Spáni og hefur auk þess lagt líf sitt í hendur Jesú Krists.
„Ég byrjaði mjög ung að stunda lyftingar, var í Baðhúsinu fyrst en fór svo að æfa af viti í kringum 17 ára aldurinn, eða upp úr aldamótum. Þá fór ég í World Class í Fellsmúla og byrjaði að taka almennilega á því, en það var aldrei stöðugt vegna þess að ég var alltaf í óheilbrigða líferninu líka,“ segir Kalla Lóa frá en leggur áherslu á að líkamsræktin hafi alltaf bjargað sér í gegnum allt í lífinu, hvort sem það var neysla, kvíði, þunglyndi, sambandsslit eða áföll. „Ræktin náði alltaf að rífa mig upp,“ segir hún.
„Ég byrjaði mjög ung í neyslu, ég var í sambandi með barnsföður mínum þegar ég var tvítug og það skánaði alls ekki þá. Svo kom næsti og það fór líka mjög illa sem var ástæðan fyrir því að ég flutti hingað fyrst, ég flúði bara, keypti miða aðra leið, vissi ekkert hvort ég væri að fara að vera hérna í mánuð eða lengur,“ segir Kalla og fjallar þarna um flutning sinn til Spánar árið 2012. Hún átti þó eftir að flytja til Íslands aftur...og svo út á ný.
„Ég tók stúdentspróf í Keili gegnum fjarnám og kláraði það hérna úti á einu ári, þá var ég búin að prófa alls konar menntaskóla á Íslandi en flosnaði alltaf upp úr þeim,“ rifjar Kalla Lóa upp og lítur mót sólu sem tekin er að lækka á himninum yfir austurströnd Spánar þennan desemberdag. Er þó vel hlýtt í veðri, en það sama verður ekki sagt um allt lífshlaup fjarþjálfarans.
„Minn besti tími sem ég var í neyslu var þegar ég var hér. Það er einmitt öfugt við flesta sem eru í neyslu, þeir geta alls ekki verið hér. Ég var miklu tæpari í kringum alla þessa geðveiki heima á Íslandi en þangað flutti ég nú samt aftur, í árslok 2013,“ segir þessi vöðvastælta kona sem bjó ein á Spáni með dóttur sinni, sem nú er 15 ára, en Kalla Lóa fann þann frið á Íberíuskaganum sem nægði henni til að ljúka stúdentsprófinu.
„Um leið og ég fór til Íslands fór allt á hvolf aftur og svo illa að eftir hálft ár var ég komin í meðferð,“ segir Kalla Lóa sem áður hafði farið í meðferð við fíkn sinni árið 2004 og þakkar Eddu Margréti Bóasdóttur vinkonu sinni fyrir að hafa komið henni í seinni meðferðina. „Hún keyrði mig upp á geðdeild og keyrði mig svo upp á Vog og reddaði mér inn í meðferðina mjög fljótt. Ég var fyrst ekki tilbúin að fara en það leið ekki langur tími þar til samviskubitið gagnvart dóttur minni var að éta mig að innan og ég gafst endanlega upp,“ heldur hún áfram.
Eftir meðferðina er Kalla Lóa edrú í tæp þrjú og hálft ár. „Svo dett ég í það jólin 2018 og datt mjög illa í það strax en það stóð bara yfir í viku, ég fann bara strax að ég átti ekki heima í þessum heimi lengur. Ég var búin að vera á fundum og á kafi í [AA] samtökunum og það var búið að segja mér að ég yrði að fara aftur beint í samtökin, sem ég skil en vanlíðanin eftir þetta var svo svakaleg að ég bara fann það sterkt að ég myndi aldrei fara á þennan stað aftur,“ segir Kalla Lóa og lítur dökkbrúnum augum sínum í augu blaðamanns. Hér fylgir hugur máli.
„Ég hætti þó ekki alveg eftir þetta fall samt, en fór þó aldrei í sama farið og ég var í. Þarna var ég hætt að biðja, ég var búin að vera iðin við bænina fram að þessu en tek svo bænina upp á ný um ári seinna. Og hana iðka ég enn í dag.“
Kalla Lóa er strangtrúuð, hún dregur ekki fjöður yfir það í þessu viðtali. „Ég hef alltaf verið kristin og trúað á Guð, það byrjaði bara með minni barnatrú en þessi sterka trú kemur ekki fyrr en fyrri hluta þessa árs 2022. Ástæðan fyrir því var að ég hef alla tíð, eða frá því ég var 14 ára, strítt við djöfla sem sækja að mér um nætur. Mamma var alltaf að senda mig til alls konar miðla og guðsmanna en ekkert virkaði. Þegar ég svo verð edrú magnaðist þetta enn þá meira og ég skildi aldrei af hverju ég gat ekki sigrað þetta þar sem ég bað alltaf til guðs. En svo gerist það í byrjun þessa árs að ég fer að fræðast um Jesú sem ég hafði aldrei í raun pælt í og aldrei talað til.
Eftir það byrjar mín versta martröð sem ég hef á ævi minni upplifað. Djöflaárásirnar urðu svo svakalegar að ég meira að segja var farin að tala um það við dóttur mína hver ég myndi vilja að tæki við henni ef ég dæi. Þetta var hreint helvíti á jörðu. En ég fékk mikla hjálp frá kristnu fólki á Íslandi sem kenndi mér öll vopnin gegn þessu og komst þá að því að Jesús en eina vopnið gegn djöflinum. Eftir að ég fór að nota það og finna hversu sterk ég varð gegn þeim ákvað ég að fylgja Jesúleiðinni alla leið. Ég stúderaði allar syndir, margt sem ég hafði ekki hugmynd um að væri synd einu sinni, og ákvað að taka þetta alla leið. Ég fór svo til Íslands í júní og gekkst undir niðurdýfingu. Þetta var langt og erfitt ferli en í dag gæti ég ekki verið hamingjusamari.
Hvað finnst Köllu Lóu þá um þá nálgun AA-samtakanna að koma bágstöddum á réttan kjöl í lífinu gegnum trúna?
„Mér finnst að allar meðferðir eigi að taka trúna inn, hún er það eina sem getur bjargað sál þinni,“ svarar Kalla Lóa hiklaust. „Ég hef aldrei kunnað með áfengi að fara en í dag er bara búið að taka frá mér alla fíkn. Ég fæ mér meira að segja einstaka sinnum í glas og ekkert mál. Það er ekki synd að fá sér í glas en það er synd að vera drukkinn. Helstu skiptin sem ég fæ mér í glas núna er þegar ég fer út að borða, þá drekk ég kannski eitt til þrjú glös af léttvíni,“ heldur hún áfram.
Kalla Lóa lifir af fjarþjálfun þar sem íslenskar konur eru helstu viðskiptavinir hennar. Hvernig kom þetta lifibrauð til?
„Ég var einkaþjálfari á Íslandi, var í World Class en aðeins að fjarþjálfa með því, bara lítið, ég var aðallega að einkaþjálfa og þegar ég flyt hingað var planið mitt að vera einkaþjálfari hér en þegar ég fór að skoða tekjurnar voru þær bara ekki nógu góðar. Ef þú ætlar að rukka eitthvert „sky high“ gjald fer kúnninn bara eitthvað annað. Þannig að ég byrja á að fjarþjálfa. Ég var í þremur-fjórum vinnum á Íslandi en fjarþjálfunin er eina vinnan sem ég gat tekið með út,“ segir Kalla Lóa.
Hún notar nú eigið smáforrit, eða app, fyrir viðskiptavinina, nýtti sér áður smáforritið True Coach sem fleiri þjálfarar nýttu en keypti sitt eigið árið 2019. „Það er risabatterí að byggja upp sitt eigið app og ég klára það í janúar eða febrúar 2020 og byrja svo með þessa „challenge“-þjálfun sem ég er með í dag og hef verið með hana síðan,“ útskýrir Kalla Lóa.
Þjálfun þessi felst í sex vikna áskorun sem hún keyrir árið um kring. Viðskiptavinir hennar kaupa sig inn í æfingaáætlun og fá þá matseðil og aðgang að smáforritinu. „Þessu fylgir aðgangur að mér auk þess sem ég er með stuðningshóp á Facebook. Ég framkvæmi svokallað „body check“, þá senda viðskiptavinirnir mér myndir, þeir ráða auðvitað hvort þeir gera það eða ekki, og svo byrjar þjálfunin,“ segir Kalla Lóa frá.
Hún er eingöngu með kvenkyns viðskiptavini í þjálfuninni. Hvernig stendur á því?
„Prógrömmin mín eru stíluð inn á konur, mikið um bossa- og fótaæfingar en minna um til dæmis brjóstæfingar eins og karlmenn myndu vilja. Þetta er stílað inn á kvenmannslíkamann, flestar stelpur vilja bossa,“ segir Kalla Lóa og glottir við tönn en játar þó að allir viðskiptavinir hennar fái spurningalista þar sem þeir eru spurðir út í markmið sín með líkamsræktinni. „Þegar „challenge“ er að byrja sit ég bara föst við tölvuna í fjóra-fimm daga á undan, þá þýðir ekkert að bera við veikindum,“ segir Kalla Lóa og brosir breitt. „En ég get unnið hvar sem er og vinnan mín fylgir mér út um allt sem er alveg geggjað,“ heldur hún áfram og kveðst auðveldlega geta lifað á fjarþjálfuninni, hún hafi vel upp úr starfi sínu.
Kalla Lóa er einfaldlega í hrikalegu formi eins og myndir með viðtalinu bera með sér. Hvernig er hennar æfingarútína?
„Mín æfingarútína núna er dálítið breytt vegna þess að hér áður fyrr var ég mjög mikið í þungum lyftum, mínar æfingar hafa fyrst og fremst verið uppbyggingaræfingar, ekkert hopp eða skopp, bara alvörulyftingaæfingar en inn á milli fer ég í „power“-lyftingar sem ég er nýbyrjuð að gera aftur,“ segir fjarþjálfarinn sem einnig leggur stund á hnefaleika.
„Neðri hlutinn hefur alltaf verið veikleikinn minn af því að ég er svo bakveik, ég þarf að leggja mjög mikla vinnu í rass og læri til dæmis,“ heldur hún áfram en augljóst er að styrkleikar Köllu Lóu liggja í hrikalegum öxlum og handleggjum. „Mataræðið var alltaf annar veikleiki hjá mér alveg síðan ég var krakki, ég var algjört jójó. Var alltaf ofur holl í x daga og svo sprakk ég alltaf reglulega inn á milli,“ segir Kalla Lóa með bros á vör. „Ef ég leyfði mér til dæmis eina kexköku var hugsunin mín alltaf „æ, ég get ég alveg eins klárað allan pakkann fyrst ég er byrjuð“,“ bætir hún við. „En fyrir um þremur árum fer ég að breyta rosalega hvernig og hvað ég borða og þá fyrst fór allt að breytast hjá mér. En það er einmitt sú aðferð sem ég kenni stelpunum hjá mér.“
En yfir í allt aðra sálma. Hvernig upplifir Kalla Lóa spænskt samfélag?
„Þetta er bara æðislegt, fólkið hérna er bara yndislegt, hér til dæmis er miklu meira um að þér sé heilsað úti á götu. Það er líka bara staðreynd að þar sem er sól er fólk almennt ánægðara, maður finnur það bara,“ svarar hún og segir Spánverja enn fremur taka vel á móti innflytjendum. „Það eina er kannski að þeir verða pínu pirraðir sumir ef þú talar ekki spænskuna. En viðhorfið breytist fljótt ef þú reynir að tala smá, þá verða þeir alltaf glaðir og maður sér mun,“ heldur hún áfram. „Málið er nefnilega að þú lærir ekki tungumálið almennilega fyrr en þú ferð að hafa samskipti við Spánverja,“ segir Kalla Lóa Pizarro, fjarþjálfari á Orihuela Costa á Spáni, að lokum.
Kalla Lóa er með nýársáskorun, New Year-New Me, 2. janúar, þær sem hafa áhuga á að taka þátt geta haft samband við hana í gegnum Instagram Kalla_pizarro.