Það kom knattspyrnudeild Breiðabliks mjög á óvart þegar hún fékk 200 milljónir króna í arf frá dyggum stuðningsmanni og fyrrverandi stjórnarmanni félagsins.
„Við höfðum ekkert heyrt af þessu og höfðum engan grun um það með neinum hætti fyrr en lögmaðurinn sem sá um þetta hafði samband við okkur í sumar,“ segir Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, spurður út í arfinn veglega.
„En auðvitað þekktum við til Guðmundar frá gamalli tíð. Hann var heiðursfélagi Breiðabliks og gjaldkeri hér áður og reyndar einn af stofnfélögum félagsins líka.“
Talað var um að knattspyrnudeildin hafi alltaf verið rekin fyrir ofan núllið þegar Guðmundur Eggert var gjaldkeri. „Kannski ættu einhverjir sem reka knattspyrnudeildir í dag að reyna að taka það sér til fyrirmyndar, svona almennt séð,“ segir Flosi og hlær.
Guðmundur Eggert var einn þriggja bræðra, sem allir voru einhleypir, og sá síðasti þeirra til að falla frá. „Þeir liggja saman í Kópavogskirkjugarði. Það er ekki hægt að vera meiri Kópavogsbúar. Þeir voru fæddir og aldir upp í gamla Kópavogsbænum. Faðir þeirra var þar bústjóri, þannig að þeir voru Kópavogsbúar í merg og bein og virkir í ýmsu í bænum,“ greinir Flosi frá og bætir við að faðir þeirra hafi verið í einni af fyrstu hreppsnefndum bæjarins.
Guðmundur Eggert hafði búið í nokkur ár á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð þegar hann lést og milljónirnar 200 komu út úr húsi og öðrum eignum hans. Hann vann hjá Kópavogsbæ meira og minna alla sína tíð, að sögn Flosa, meðal annars sem bílstjóri.
„Hann var ekki hálaunamaður en fór greinilega vel með eins og við sjáum. Það eru í sjálfu sér mjög litlar kvaðir á okkur í erfðaskránni nema að það kemur skýrt fram að þessu skuli verja jafnt til karla- og kvennadeildar. Frá karlmanni sem er fæddur 1935 þá finnst mér það mjög flott viðhorf.“
Flosi segir miklar skyldur settar á Breiðablik að verja arfinum í samræmi við óskir Guðmundar Eggerts. Fram kom í tilkynningu Breiðabliks að ekki er gert ráð fyrir því að nýta peningana í beinan rekstur heldur í einstök verkefni og framþróun í starfi knattspyrnudeildarinnar. Engu verður varið í laun leikmanna eða leikmannakaup.
Upphæðin er sú hæsta sem nokkur hefur arfleitt knattspyrnudeild Breiðabliks að, segir Flosi aðspurður. „Þetta er algjörlega án nokkurra fordæma, nokkurn tímann,“ segir hann og svarar því að peningarnir komi að góðum notum. „Enda setti okkur öll hljóð þegar við fengum að vita af þessu. Auðvitað kemur þetta sér ofboðslega vel og vonandi gerir þetta okkur fært að standa enn betur með okkar fólki, bjóða upp á betri þjálfun, betri aðstöðu og betra umhverfi,“ bætir hann við, glaður í bragði.