Allt bendir til að árið 2022 hafi útflutningstekjur Íslands verið meiri en nokkru sinni fyrr, eða á bilinu 1.600 til 1.700 milljarðar króna. Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, segir helstu útflutningsgreinar hafa vaxið verulega á milli ára og aðstæður á mörkuðum góðar þrátt fyrir að ýmsir erfiðleikar steðji að mikilvægustu hagkerfum Norður-Evrópu og annars staðar í Evrópu.
Íslandsstofa tók nýverið þátt í alþjóðlegri mælingu á styrk vörumerkis 60 þjóða og hafnaði Ísland í 21. sæti. Er Ísland því með álíka sterka ímynd á heimsvísu og Belgía, Grikkland og Suður-Kórea. Því betur sem fólk þekkir til Íslands, því meira álit hefur það á landinu og fékk Ísland m.a. háa einkunn fyrir stjórnarfar og náttúrufegurð.
Pétur segir að þó vel gangi í dag hljóti á endanum einhverra áhrifa að gæta af Úkraínustríðinu og háu orkuverði og verðbólgu í Evrópu og Bandaríkjunum.
Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.