Ferðamaðurinn kunni ekki á bílinn

Sirrý Arnardóttir var á leið frá Leifsstöð þegar hún og …
Sirrý Arnardóttir var á leið frá Leifsstöð þegar hún og fjölskylda hennar lentu á bak við ferðamanninn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þarf ekki að kunna að keyra til að leigja bílaleigubíl?“ Þetta spyr Sirrý Arnardóttir í færslu á facebook eftir að hún og fjölskylda hennar rákust á ferðamann sem virðist ekki hafa kunnað að aka bifreiðinni sem hann hafði leigt sér.

Sirrý var á leið frá Leifsstöð þegar umferðin stöðvaðist vegna bílaleigubíls sem hreyfðist ekki. Því fór maður hennar út að kanna ástandið.

„Bílaleigubíllinn var fullur af, að því er virtist, kínverskum ferðamönnum. Ökumaðurinn kunni ekki að koma bílnum í gang aftur. Hann kunni ekki á gírana, ekki á handbremsuna, ekki á stefnuljós eða rúðuþurrku,“ segir hún. 

Kunni ekki að skipta um gír

„Kristján benti honum á að hann væri með bílinn í handbremsu, hann þyrfti að starta bílnum, hann væri í þriðja gír og það gengi ekki. Og svo kenndi hann honum á að koma bílnum í fyrsta gír.“

Bifreið ferðamannsins fór svo af stað en svo virðist sem hann hafi ekki kunnað að skipta um gír. Því fór löng bílalestin hægt af stað og var ekki hægt að taka fram úr ferðamanninum fyrr en löngu síðar.

Að lokum veltir hún því fyrir sér hvernig þessum ferðamönnum gengi að aka í íslenskum aðstæðum.

„Nú eru þessir ferðamenn væntanlega að fara að skoða landið í janúar. Hvernig skyldi bílstjóranum ganga á einbreiðum brúm, niður Kambana, í hálku á mjóum fjallvegum...? Þarf ekki að sýna fram á að kunna að aka bíl til að taka bíl á leigu á Íslandi?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert