Hætta að bera út Fréttablaðið

Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins.
Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins. Fréttablaðið/Anton Brink

Dreifingu Fréttablaðsins hefur verið breytt frá og með áramótum og verður það ekki lengur borið út á heimili á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Þess í stað verður það aðgengilegt á 120 stöðum á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, Árborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi og á Akureyri. Þá verður útgáfan einnig aðgengileg rafrænt eins og verið hefur. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins í dag.

Þar segir að áfram verði unnið að frekari dreifingu blaðsins og að breytt dreifing tryggi snertiflöt við yfir 85% landsmanna, en ekki er tekið fram hversu stór hluti þess komi til vegna rafrænnar dreifingar. Ástæða breytinganna er sögð kostnaður og umhverfismál.

„Í upp­hafi komust stofn­endur Frétta­blaðsins að þeirri niður­stöðu að dreifa yrði blaðinu í heima­hús því hér á landi væri fjöl­förnum stöðum á borð við það sem menn þekkja frá öðrum löndum, ekki til að dreifa. Nú hafa ýmsar breytingar orðið á sam­fé­lags­legum háttum þannig að fjöldi fólks kemur oft í viku í verslanir stór­markaða, verslana­mið­stöðvar, þjónustu­stöðvar olíu­fé­laga, sund- og í­þrótta­mið­stöðvar og svo mætti lengi telja,“ er haft eftir Jóni Þóris­syni, for­stjóra Torgs út­gáfu­fé­lags Frétta­blaðsins og annarra miðla, svo sem DV, Hring­brautar og fretta­bladid.is, á vefsíðu Fréttablaðsins.

Milljarður í dreifingu

„Á­stæða þessarar breytingar er marg­þætt. Í fyrsta lagi höfum við hjá Torgi haft vaxandi á­hyggjur af því að dreifing blaðsins væri ekki í sam­ræmi við þau mark­mið sem við höfum gengið út frá og að dreifingar­ferlinu fylgdi ó­þarfa sóun. Það er í takti við vaxandi um­hverfis­vitund að lág­marka kol­efnis­spor í okkar starf­semi. Við bætist svo að dreifing blaðs til tug­þúsunda heimila er ó­hemju kostnaðar­söm og reikna má með að kostnaður á ný­byrjuðu ári hefði orðið yfir einn milljarður króna,“ er haft eftir Jóni auk þess sem hann segir að fullreynt hafi verið að breyta dreifingarsamningi við Póstdreifingu sem dreift hefur blaðinu um árabil, en Póstdreifing er í eigu Torgs, Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og mbl.is, og Reynis Árnasonar.

„Þessi samningur var þegar í gildi þegar nú­verandi eig­endur komu að fé­laginu og þrátt fyrir marg­í­trekaðar til­raunir reyndist ekki flötur á að semja um að losna undan þeirri skuld­bindingu. Þannig var allt svig­rúm í út­gáfunni fjar­lægt, ein­taka­fjöldi fast­settur sem og fjöldi út­gáfu­daga og ekki mögu­legt að koma til móts við um­hverfis­sjónar­mið og sporna við sóun. Því er ekki að leyna að um eins milljarðs króna ár­legur dreifingar­kostnaður var þung­bær fyrir reksturinn,“ er haft eftir Jóni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert