Ný dreifing kalli á breytt útlit og efnistök

Fréttablaðið verður ekki lengur borið út í öll hús, heldur …
Fréttablaðið verður ekki lengur borið út í öll hús, heldur dreift á 120 staði á höfuðborgarsvæðinu og víðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breyting á dreifingu Fréttablaðsins á þann hátt að því verður ekki lengur borið út heldur dreift á fjölfarna staði mun að öðru leyti ekki hafa áhrif á útgáfuna sjálfa. Ekki er áformað að breytingar verði á starfsmannafjölda, útgáfudögum eða umsvifum í útgáfustarfseminni. Hins vegar eru líkur á að einhver breyting verði á útliti blaðsins og efnistökum í samræmi við breytta dreifingu. Þetta segir Jón Þórisson, forstjóri Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins.

Blaðinu verður héðan í frá m.a. dreift við sundlaugar, verslanir og í verslunarmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, á Árborgarsvæðinu, í Borgarnesi og á Akureyri. Jón segir í samtali við mbl.is að horft verði til þess að útvíkka dreifinguna enn frekar á komandi misserum til að ná víðar um landið.

Í tilkynningu á vefsíðu Fréttablaðsins fyrr í dag var vísað til þess að ástæða breytingarinnar væri annars vegar kostnaður við dreifinguna og hins vegar umhverfismál. Er meðal annars vísað í samning félagsins við Póstdreifingu sem bæði dreifir Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, en Póstdreifing er í eigu beggja útgefenda.

Lá ekki fyrir fyrr en í lok árs

Spurður nánar út í þessi mál og hvort uppsögn samningsins hafi lengi legið fyrir segir Jón að hún hafi í raun ekki komið til fyrr en alveg í lok ársins og tekið gildi um áramótin. Hann segir samninginn hafa verið gerðan fyrir tíma núverandi eigenda og að líklega hafi það verið gert til að tryggja fyrirsjáanleika. „Hins vegar er umhverfið í fjölmiðlaútgáfu og fjölmiðlastarfsemi á Íslandi síbreytilegt og það var komið að því að þessi fyrirsjáanleiki var orðinn verulega íþyngjandi. Það var nauðsynlegt fyrir okkur að geta brugðist við en við náðum ekki árangri í þeim viðræðum,“ segir Jón.

Jón Þórisson, forstjóri Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins.
Jón Þórisson, forstjóri Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins. Fréttablaðið/Anton Brink

En hvað verður um hlut Torgs í Póstdreifingu í ljósi þess að félagið ætlar nú að hætta að nota þjónustu fyrirtækisins?  „Við höfum tilkynnt að við munum ekki notfæra okkur þjónustu Póstdreifingar við dreifingu blaðsins eftirleiðis. Þessi hlutur er út af fyrir sig þarna enn þá og svo verður bara að sjá hvernig því vindur fram,“ segir Jón.

Segir tjón af ófullnægjandi dreifingu hlaupa á hundruðum milljóna

Spurður hvort þetta svar þýði að það séu einhverjar kröfur uppi af hálfu annars hvors aðilans eða að hann telji einhver málaferli framundan segir Jón að hann eigi nú ekki von á málsóknum. „En við teljum okkur hafa orðið fyrir tjóni við dreifingu blaðsins, ekki síst á síðasta ári. Ég held að það megi jafnvel leiða fram lengra tímabil líka. Höfum sett fram óskir um að það verði rætt við okkur um hvernig því tjóni verði mætt, en því hefur sömuleiðis verið hafnað.“

Spurður um umfang meints tjón og í hverju það felist segir hann það tengjast því hvort blaðinu hafi verið dreift í samræmi við samkomulagið eða vanbrestur orðið þar á.  „Það telur í hundruðum milljóna og felst í því að við höfum tapað vænlegum viðskiptum og misst af því sem við áttum von á að gæti gengið því við vorum í stöðugri vörn að verja þessa dreifingu sem var alls ekki í nógu góðu horfi. Eftir sem áður beindust að okkur reikningar eins og um fullnaðardreifingu hefði verið að ræða.“

„Ekki komið að þeim tímapunkti

Jóni er einnig tíðrætt um að talsverð aukning hafi verið um að blaðinu sé hlaðið niður á rafrænu formi og í appi. Það sé svipuð þróun og erlendis í samræmi við aukinn lestur miðla rafrænt og nefnir hann í því samhengi ákvörðun BT útgáfunnar í Danmörku sem hætti á prenti og færði sig í rafræna miðlun.

En er blaðið í pappírsformi búið að renna sitt skeið? „En við vitum að það er áfram áhugi á því hjá fólki að hafa prentað blað í höndunum og þess vegna er alls ekki komið að þeim tímapunkti að rafrænar leiðir leysi algjörlega blaðið af hólmi í pappírsformi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert