Fyrstu gestirnir á hinu nýja Iceland Parliament Hotel við Austurvöll í Reykjavík dvöldust þar um áramótin. Iceland Hotel Collection by Berjaya, áður Icelandair Hotels, á og rekur hótelið, hvar verða alls 163 herbergi þegar framkvæmdum lýkur endanlega nú á vormánuðum. Stærsti hlutinn er þó tilbúinn, hótel sem er í gamla Landsímahúsinu og gamla Kvennaskólanum, ásamt húsinu í Aðalstræti 11. Annað eru nýbyggingar sem tengja saman ýmis hús.
„Opnun hótelsins nú er góður endir á annasömu ári og spennandi upphaf þessa nýja. Þessu verkefni er þó hvergi nærri lokið. Nú þarf til dæmis að móta og þróa margvíslega þjónustu sem verður hér í boði. Einnig er enn unnið að því að ljúka byggingu síðustu 18 herbergja hótelsins. Þau bættust við á seinni stigum hönnunar og verða tilbúin á vormánuðum,“ segir Hildur Ómarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Iceland Hotel Collection, í samtali við Morgunblaðið.
Hildur hefur stýrt framkvæmdum við hótelið fyrir hönd rekstraraðila. Hótelstjóri er Helgi Vigfússon sem áður stýrði Hilton Reykjavík Nordica.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.