Sigríður Soffía Níelsdóttir, danshöfundur, hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2022 sem afhent voru við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrr í dag. Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981.
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin, sem eru áletraður gripur úr áli frá ISAL í Straumsvík og ein og hálf milljón króna í verðlaunafé. Í tilkynningu ISAL álversins í Straumsvík segir að álverið hafi verið bakhjarl verðlaunanna frá árinu 2000.
Sigríður Soffía útskrifaðist með BA-gráðu frá samtímadansbraut Listaháskóla Íslands árið 2009. En hún var við skiptinámi í einum fremsta sirkusskóla Evrópu, École Superior des Arts de Cirque í Brussel.
Hún dansaði með Shalala-flokki Ernu Ómarsdóttur frá 2009-2014. Sigríður Soffía hefur unnið bæði sem dansari og danshöfundur í fjölmörgum uppfærslum, bæði hérlendis sem erlendis. Hún útskrifaðist með MBA-gráðu frá HR 2021 og rekur nýsköpunarfyrirtækið Eldblóm.
Verk hennar, Svartar fjaðrir, opnaði 29. Listahátíð Reykjavíkur á Stóra sviði Þjóðleikhússins í maí 2015. Svartar fjaðrir hlaut þrjár tilnefningar til Grímunnar; Sproti ársins, Búningahönnuður ársins og Tónlist ársins.
Sigríður Soffía er einna þekktust fyrir flugeldasýningar sínar á Menningarnótt Reykjavíkur en árið 2013 hlaut hún Menningarverðlaun DV fyrir Elda, sem var fyrsta flugeldaverkið hennar. Í framhaldi var henni boðið að gera opnunarflugeldasýningu La Mercé, borgarhátíðar Barcelona, þar sem flugeldasýningu hennar, Northern Nights, var skotið upp fyrir augum 2 miljóna manna frá Barceloneta-ströndinni.
Í umsögn dómnefndar segir að Sigríður sé sannur fulltrúi listamanna sem vinna þvert á lönd og viðföng og bera verk hennar vitni um öflugan sköpunarkraft þar sem sífellt er leitað á ný viðmið og ókunnar lendur.
Í dómnefnd Íslensku bjartsýnisverðlaunanna eru Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Sif Gunnarsdóttir og Rannveig Rist.