Þarf að greiða 66 milljóna sekt vegna skattabrota

Dómur í málinu féll um miðjan desember í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómur í málinu féll um miðjan desember í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Kona á fimmtugsaldri var í síðasta mánuði dæmd í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 66,4 milljónir í sekt til ríkissjóðs vegna skattalagabrota í rekstri tveggja félaga sem hún var daglegur stjórnandi í. Samtals er um að ræða rúmlega 22 milljóna skattabrot, en hún var dæmd til að greiða þrefalda þá upphæð.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að skattrannsóknarstjóri hafi formlega tilkynnt konunni, Sylvíu Guðrúnu Walthersdóttur, að skattrannsókn væri hafin á persónulegum skattskilum hennar árin 2017. Hafði lögreglan árið áður lokað Fasteignasölu Reykjavíkur að beiðni ríkisskattstjóra, en Sylvía var annar eigandi fasteignasölunnar. Hófst rannsókn á skattskilum hennar vegna rannsóknar á bókhaldi og skattskilum þriggja félaga sem konan tengdist.

Skatturinn áður endurákvarðað skatta konunnar

Árið 2019 endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld hennar fyrir árin 2012 og 2014-2017 með 25% álagi auk þess sem virðisaukaskattsskyld velta hennar var ákvörðuð fyrir árið 2011, en Sylvía undi úrskurðinum. Í kjölfarið hóf héraðssaksóknari rannsókn á hluta málsins sem nú er ákært fyrir, en þar er um að ræða skattgreiðslur tveggja fyrirtækja sem konan kom að.

Meðferð málsins fyrir dómi tafðist töluvert, en því var tvívegis endurúthlutað vegna námsleyfis dómara. Kemur þar jafnframt fram að fallið hafi verið frá tveimur ákæruliðum og hluta tveggja annarra. Eftir stóð hins vegar ákæra um að hún hefði ekki staðið skil á virðisaukaskatti og ekki staðið skil á efnislega réttum skattframtölum og þannig komist hjá því að greiða réttan skatt af rekstri félaganna.

Meðferð málsins „dregist óhóflega

Konan játaði brot sín og var sakfelld fyrir dómi. Í dómsorði er tekið er fram að langt hafi verið liðið frá brotunum. „Meðferð málsins fyrir dómi hefur dregist óhóflega af ástæðum sem ekki verða raktar til hennar,“ segir þar. Hins vegar er tekið fram að hún sé sakfelld fyrir stórfelld skattalagabrot og að um verulegar fjárhæðir hafi verið að ræða.  Er því sem fyrr segir konan dæmd í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 66,4 milljónir í sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert