Verkfræðingur í auglýsingastríð við álverin

Reynir Þór Eyvindsson keypti auglýsingu á besta tíma á RÚV …
Reynir Þór Eyvindsson keypti auglýsingu á besta tíma á RÚV á gamlárskvöld. Samsett mynd

Rafmagnsverkfræðingurinn Reynir Þór Eyvindsson hefur um nokkurra ára skeið keypt auglýsingatíma hjá Ríkisútvarpinu til þess að tefla fram því sem hann telur gleymdar staðreyndir um álframleiðslu á Íslandi.

Kveikjan að þessu segir Reynir vera þrálátan áróður álframleiðenda í sjónvarpi um hátíðirnar. Reynir segir þær auglýsingar vera gerðar í þeim tilgangi að þvætta starfsemi sem sé með stærra sótspor en almenning grunar.

Auglýsing Reynis sem var sjónvarpað klukkan 21.10 á gamlárskvöld.
Auglýsing Reynis sem var sjónvarpað klukkan 21.10 á gamlárskvöld. Skjáskot/Rúv

Gæti fyllt Laugardalslaugina fimmtánhundruð sinnum

„Þetta er hápólitískt mál, það eru ekki allir hrifnir af þessari framleiðslu og hún er mjög mengandi,“ segir Reynir.

Í nýjustu auglýsingunni sem var sjónvarpað rétt fyrir fréttaannálinn á gamlárskvöld kemur eftirfarandi fram:

„Íslensk álver: Borga mjög litla skatta, menga tvöfalt á við allan bílaflotann, um 1,5 milljón tonn af rauðri eiturleðju myndast við framleiðslu súráls til Íslands sem geti fyllt útistundlaug Laugardalslaugarinnar 1.500 sinnum.“

Ekki eins glæsilegar og auglýsingar áliðnaðarins

Reynir viðurkennir að auglýsingaslotið á RÚV á gamlárskvöldi sé mjög dýrt en segist ekki hafa mikið annað við peningana sína að gera. Hann greiðir allt úr eigin vasa en viðurkennir þó að sínar auglýsingar standist ekki samanburð við auglýsingar talsmanna áliðnaðarins.

Reynir þykir peningunum vel varið þó þær veki ekki nema fáeina til umhugsunar um áliðnaðinn á Íslandi.

Hann heldur því fram að forstöðumenn álvera og talsmenn þeirra hafi sannfært Íslendinga um alls kyns hluti sem eigi ekki við rök að styðjast í reynd.

Íslensk álver geri það ekki að verkum að kínversk loki

Til að mynda segja þeir að álframleiðsla á Íslandi sé í raun umhverfisvæn vegna þess að hún sé hlutfallslega með minna sótspor en aðrar verksmiðjur í Kína. Reynir segir það ekki eiga við rök að styðjast að það réttlæti tilveru þeirra þar sem þær íslensku mengi feikimikið og engum kínverskum álverum hafi verið lokað með tilkomu þeirra.

Sama megi segja um jákvæð áhrif lækkandi álverðs á útblástur bíla. Íslensk álver muni ekki koma til með að hafa áhrif á hvort framleiddir verði léttari bílar í heiminum.

Reynir vonast til þess að hugvekjur hans um jól og áramót veki Íslendinga til umhugsunar um þau skilaboð sem forsvarsmenn álvera telji fólki trú um um hátíðirnar í gegnum sjónvarpsauglýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert