Eldsupptök gætu tengst þíðingu vatnslagna

Sölu- og veitingaskálinn á Hörgslandi alelda.
Sölu- og veitingaskálinn á Hörgslandi alelda. Ljósmynd/Sigurjón Andrésson, birt m. leyfi höfundar af Facebook

„Það er mannskapur ennþá að passa að enginn eldur sé enn í glæðum og koma í veg fyrir að það fjúki þarna járnplötur og fleira,“ segir Bjarki V. Guðnason slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Skaftárhrepps um brunann á Sölu- og þjónustuskálanum á Hörgslandi sem varð fyrr í dag.

„Það kom fram frá eiganda Söluskálans að fyrr um daginn var verið að reyna að þíða frosnar vatnslagnir í skálanum, og það virðist eitthvað hafa misfarist við það," segir Bjarki. 

Hann segir að aðstæður hafi verið erfiðar út af veðrinu. „Það var býsna mikill vindur og kuldi, þótt það sé kannski ekki kalt hérna núna miðað við hvernig það hefur verið undanfarið. En svo var líka mjög erfitt að ná í vatn því allt er frosið.“

Bjarki segir að það séu hús þarna í kring, en ekkert mjög nálægt, en þeir hafi getað komið í veg fyrir að eldurinn breiddist út. „Við fengum líka aðstoð nágranna okkar í slökkviliðinu á Vík,“ en skálinn varð mjög fljótt alelda. 

„Þetta er náttúrlega bara timburhús og ekkert brunahólfað eða neitt og svo var þarna töluverður vindur, þannig að þegar svona fer af stað er ekkert hægt að ráða við neitt,“ segir Bjarki að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert