Hætta útburði vegna taps Fréttablaðsins

Fréttablaðið er ekki lengur borið út á höfuðborgarsvæðinu heldur dreift …
Fréttablaðið er ekki lengur borið út á höfuðborgarsvæðinu heldur dreift á tugi staða þar sem íbúar geta sótt það. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grundvallarbreyting verður á dreifingu Fréttablaðsins í dag, en því verður ekki lengur dreift óumbeðið heim til fólks á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri líkt og verið hefur. Kurr mun vera meðal auglýsenda í blaðinu, en þeim var ekki gert viðvart um breytingarnar fyrir fram.

Í stað þess að blaðið verði borið út geta áhugasamir héðan í frá sótt sér eintak af blaðinu í sérstaka kassa, sem komið verður fyrir á um 120 stöðum, að sögn forsvarsmanna blaðsins, 62 á höfuðborgarsvæðinu. Þar ræðir fyrst og fremst um stórverslanir og bensínstöðvar.

Sagt er að þá eigi blaðið „snertiflöt við yfir 85% landsmanna“, sem eigi raunhæfan möguleika á að nálgast eintak á útgáfudegi, og að Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, geri ekki ráð fyrir að breytt dreifing hafi teljandi áhrif á lesturinn, sem hefur dregist saman jafnt og þétt.

Árið 2007 sáu 65% landsmanna blaðið í viku hverri, um 38% þegar núverandi eigendur tóku við 2019, en nú aðeins um 28%, samkvæmt könnun Gallup. Það eru uppsafnaðar tölur, færri sjá blaðið daglega og þær segja lítið um eiginlegan lestur.

Bar ekki dreifingarkostnað

Jón Þórisson forstjóri Torgs segir ástæðurnar fyrir þessu nokkrar og nefnir fyrst breytta samfélagshætti, þar sem nú fari margir oft í viku í stórmarkaði, bensínstöðvar, sund eða ámóta.

Þá segir Jón að dreifingin hafi ekki haft tilætluð áhrif og að útgáfufyrirtækið hafi haft vaxandi áhyggjur af sóun, væntanlega að blaðið hafi ekki verið lesið í takt við prentað upplag, og tiltók umhverfissjónarmið. Síðast en ekki síst hafi dreifingin verið mjög kostnaðarsöm og segir Jón að reikna hafi mátt með að kostnaðurinn hefði að óbreyttu orðið meira en milljarður króna á þessu ári.

Fréttablaðið er til húsa við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur.
Fréttablaðið er til húsa við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þessi síðastnefnda ástæða er vafalaust sú veigamesta, sérstaklega ef dreifingin hefur ekki leitt af sér lestur í sama mæli. Fréttablaðið hefur nær einungis tekjur af auglýsingasölu, en þær tekjur geta dregist ört saman ef lesturinn er dræmur.

Upplagið snarminnkað

Talið er að Fréttablaðið hafi verið prentað í allt að 75 þúsund eintökum til þessa. Sé miðað við að blaðinu verði dreift á 120 stöðum og 50 eintök að jafnaði til reiðu á hverjum stað, ræðir þar aðeins um 6 þúsund eintök, svo við það gæti mögulegum lesendum fækkað gríðarlega.

Jón segir að „þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir“ hafi verið fullreynt að breyta dreifingarsamningi við Póstdreifingu, sem dreift hefur blaðinu um árabil. Samkvæmt heimildum blaðsins mun Póstdreifing ekki hafa útilokað neitt, en engar eiginlegar samningaviðræður hafi átt sér stað eða tillögur komið frá Torgi um breytta tilhögun.

Póstdreifing er í eigu eiganda Torgs, framkvæmdastjóra Póstdreifingar og Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins, en þáverandi eigandi Fréttablaðsins átti árið 2018 frumkvæði að samstarfi í dreifingu. Sá eignarhlutur fylgdi Torgi þegar Helgi Magnússon keypti það og sömuleiðis samningur um dreifingu Fréttablaðsins, sem nú virðist vera orðinn útgáfunni ofviða.

Samfelldur taprekstur

Gríðarlegt tap hefur verið á Torgi undanfarin ár, en það nam í fyrra 325,7 m.kr. fyrir skatta, samkvæmt ársreikningi. Á árunum 2019 og 2020 var milljarðs króna tap af reglulegri starfsemi, svo þessi þrjú ár nam samanlagt tap liðlega 1,3 milljörðum króna.

Graf/mbl.is

Helgi Magnússon fjárfestir á 91% í Torgi, í gegnum félögin Hofgarða ehf. og HFB-77 ehf. Hann keypti Torg af Ingibjörgu Pálmadóttur árið 2019, en kaupverðið var ekki undir 600 m.kr., sennilega talsvert hærra. Hlutafé í Torgi var svo aukið um 600 m.kr. 2020 og aftur um 300 m.kr. 2021.

Af þessu má ráða að tæplega hefur minnu en hátt í 2 milljörðum kr. verið varið í kaupin og styrkingu á fjárhagsgrunni félagsins frá því að Helgi Magnússon keypti Torg fyrir rúmum þremur árum, fyrir utan eigendalán til félagsins.

Eignir og skuldir færðar til

Töluverðar breytingar urðu á verðmæti eigna Torgs á fyrra ári. Þær voru tæplega 1,3 ma.kr. í lok 2021, en voru um 1,8 ma.kr. í lok 2020. Mestu munaði um að tekjuskattsinneign var tekjufærð og viðskiptavild samsteypunnar lækkaði um 546 m.kr., en í ársreikningi kom fram að óefnislegar eignir hefðu verið seldar úr félaginu með 480 m.kr. lækkun skuldar við tengda aðila. Skuldir Torgs drógust einnig nokkuð saman á fyrra ári, fóru úr 1,5 milljarði króna í 913 m.kr., einkum þar sem skuld við tengdan aðila, eiganda fyrirtækisins, var lækkuð úr 440 m.kr. í 106.

Í september í fyrra stofnuðu Hofgarðar, félag Helga Magnússonar, nýtt fyrirtæki, á nýrri kennitölu, Fjölmiðlatorgið ehf., en það er til húsa að Kalkofnsvegi 2 líkt og Fréttablaðið og hefur sama tilgang, fjölmiðlun og aðra starfsemi. Helgi var skráður stjórnarformaður Fjölmiðlatorgsins ehf. og Jón Þórisson, forstjóri Torgs, framkvæmdastjóri félagins. Ekkert liggur enn fyrir um starfsemi félagsins eða viðskipti þess við skyld félög.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert