Til skoðunar er hjá Vegagerðinni að kaupa norsku ferjuna Röst til siglinga á Breiðafirði. Ef af kaupum verður myndi Röst koma í stað ferjunnar Baldurs, sem ekki þykir henta lengur til siglinga á Breiðafirði. Eins og menn rekur minni til hafa komið upp alvarlegar vélarbilanir í Baldri.
Fram kom hjá fjárlaganefnd Alþingis fyrir jól að verði ferja leigð eða keypt til að fylla skarð Baldurs sé litið til ferjunnar Rastar sem er í siglingum í Norður-Noregi. Fram hefur komið að þetta sé eina ferjan sem í boði sé. „Það er sérfræðingur á okkar vegum á leiðinni að skoða skipið. Þessi skoðun átti að eiga sér stað fyrir áramót en frestaðist. Við reiknum með að taka stöðuna með framhaldið í næstu viku,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Ferjan Röst er rúmlega 30 ára gamalt skip, smíðað í Noregi 1991. Það er 2.036 brúttótonn, tekur 235 farþega og 42 bíla í hverri ferð.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.