Svonefndar „óskipulagðar millilendingar“ (e. diversions) á Keflavíkurflugvelli voru 61 í fyrra en 23 árið þar á undan og 14 árið 2020. Þessa miklu fjölgun má að sögn Grettis Gautasonar, staðgengils upplýsingafulltrúa Isavia, rekja til stóraukinnar umferðar um íslenska flugstjórnarsvæðið eftir að Covid-faraldurinn rénaði. Til samanburðar voru lendingar af þessu tagi í Keflavík fyrir faraldurinn 58 árið 2019 og 51 árið 2018.
Margar ástæður geta verið fyrir því að flugvél óskar eftir að fá lendingarleyfi sem var ekki upphaflega í kortunum, yfirleitt einhver óvænt atvik um borð, svo sem veikindi farþega, logandi viðvörunarljós í stjórntækjum, reykur, sprengjuhótun o.s.frv.
Miðað við umfjöllun fjölmiðla er ljóst að fæst þessara mála rata í fréttir. En dæmi um atvik af þessu tagi sem sagt var frá í fjölmiðlum í fyrra er t.d. að seint í október þurfti vél American Airlines á leið frá Heathtrow í London til Chicago í Bandaríkjunum að fá að lenda í Keflavík vegna þess að fæðing hófst hjá barnshafandi konu sem var farþegi í vélinni.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.