„Þetta er nokkuð mikil aukning“

Flugdeild Landhelgisgæslunnar sinnti 299 útköllum 2022. Fyrra met var árið …
Flugdeild Landhelgisgæslunnar sinnti 299 útköllum 2022. Fyrra met var árið 2018 þegar útköll voru 278. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Útköll flugdeildar Landhelgisgæslunnar, sem voru 299 árið 2022, hafa aldrei verið fleiri. Metið fram að þessu voru 278 útköll árið 2018.

„Þetta er nokkuð mikil aukning frá fyrra meti frá 2018. Þegar litið er á tölurnar þá er um 30% útkallanna sem voru farin út á sjó. Þá var töluvert af leitum af fólki.

Sömuleiðis varð aukning á sjúkraflutningum, þá einkum þegar sjúkraflutningaaðilar gáfu frá sér verkefni, t.d. í Vestmannaeyjum eða á Vestfjörðum, vegna veðurs og skyggnis. Þá eru þyrlurnar kallaðar til við slíkar aðstæður,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

Fleiri ferðamenn á landinu

Aðspurður segir hann að erfitt sé að segja til um af hverju útköllum flugdeildar Landhelgisgæslunnar hafi fjölgað.

„Frá 2016 til 2018 var aukning frá ári til árs, og það tengdist auknum fjölda ferðamanna á þeim tíma. Ferðamenn voru auðvitað fleiri í ár en þeir voru í fyrra og hitt í fyrra og það skýrir það að einhverju leyti.

En sömuleiðis hafa hefðbundin sjúkraflug inn á land verið fleiri í ár en við höfum séð áður. Þannig að það er það sem er að skýra þessa aukningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert