Á þriðja ár í bið eftir aðgerð

Rafn Gíslason húsasmiður varð öryrki árið 2009 og er kominn …
Rafn Gíslason húsasmiður varð öryrki árið 2009 og er kominn á þriðja ár í bið eftir liðskiptaaðgerð á vinstra hné en aðgerð á því hægra var framkvæmd 2018. Nú fer ástandið á hægra hnénu hins vegar hríðversnandi þar sem Rafn stígur meira í þann fót til að hlífa hinum. Ljósmynd/Gunnar Svanberg Skúlason

„Ég varð öryrki 2009, þá með mikla slitgigt, en ég er með allan gigtarpakkann eins og hann leggur sig að mati Helga Jónssonar gigtarlæknis,“ segir Rafn Gíslason húsasmiður í samtali við mbl.is en hann er nú að hefja sitt þriðja ár á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á vinstra hnénu og ritar pistil um bið sína á Facebook.

„Þetta hefur nú þróast þannig að ég fékk það sem kallað er brjóskdauði í hægra hnéð sem gerði það að verkum að brjóskið var alltaf að molna inn í liðinn,“ segir Rafn frá en hann þurfti reglulega að fara í liðspeglanir af þessum sökum og láta fjarlægja brjósk úr liðnum. Það var svo árið 2018 sem hann gekkst undir liðskiptaaðgerð hægra megin sem þó varð honum ekki bót meina, að áliti læknis var hnéð skemmt eftir fjölda liðspeglana og þar við sat.

Í júlí er hringt

„Svo var ég farinn að fá mikla verki í vinstra hnéð, það var 2015, og við skoðun kemur í ljós að brjóskið þeim megin er bara að mestu leyti farið, það hefur bara eyðst upp,“ segir Rafn frá en við myndatöku haustið 2020 reynist brjóskið í vinstra hnénu alveg farið, „það er bara bein í bein“, segir Rafn.

Hann hafi þá verið settur á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á vinstra hnénu, 17. desember 2020, og þá verið tjáð að biðin þar gæti orðið allt að því ár þar sem listinn hafi verið langur. „Ég flyt svo frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur í fyrrasumar og í júlí er hringt og mér sagt að ég gæti hugsanlega komist að í september og þá verið kominn í aðgerð hálfum mánuði síðar,“ heldur hann áfram.

Rafn segir farir sínar ekki sléttar en er vongóður um …
Rafn segir farir sínar ekki sléttar en er vongóður um að komast í aðgerð erlendis með rísandi sól. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert hafi hins vegar orðið af þessu og þegar Rafn sendi tölvupóst til að grennslast fyrir um stöðu mála 26. október í haust hafi hann fengið svar sem var á þá leið að hann mætti búast við því að öllu óbreyttu að komast að núna um miðjan janúar.

Ekki einn um að vera ýtt aftar

„Ég sendi svo póst núna í morgun af því að ég þurfti að fá að vita eitthvað, konan mín er mikið að kenna úti á landi og við þurftum bara að vita hvernig staðan væri með þetta. Þá var mér sagt að af þessu gæti ekki orðið og óvíst hvenær af yrði, það yrði bara haft samband við mig við fyrsta tækifæri en engin dagsetning,“ segir Rafn og kveður svörin frá Landspítalanum hafa verið á þá leið að mikið væri uppsafnað og forgangsraða þyrfti eftir alvarleika tilfella.

„Ég er auðvitað ekkert einn um það að vera ýtt aftar vegna annarra sem verr eru staddir en þetta hefur tekið mig núna á þriðja ár að komast í þessa liðskiptaaðgerð og staðan er bara orðin sú að ég er fastur heima við,“ segir Rafn sem kemst lítið um og fer um á hækjum á heimili sínu.

„Ég er sárverkjaður alla daga, hef verið að reyna að brölta eitthvað á daginn ef ég er góður en þeir dagar eru nú orðnir sárafáir,“ segir húsasmiðurinn sem kveður þann böggul fylgja skammrifi að hægra hné hans, sem ekki var gott fyrir, sé nú orðið mun verra þar sem álagið á það aukist við að hlífa því vinstra.

Vill utan í aðgerð

Hann neyddist til að láta af störfum í smíðinni vegna heilsufarsins en var á tímabili kominn í vinnu í timbursölunni hjá BYKO á Selfossi. „Ég var mikið frá störfum þar vegna liðverkja og var farinn að taka sterk verkjalyf sem endaði bara með því að ég var kallaður til tryggingalæknis hjá Tryggingastofnun ríkisins og þar úrskurðaður öryrki,“ segir hann frá.

Rafn hefur því fátt í hendi eins og staðan er en kveður dóttur sína hafa sett sig í samband við sjúkratryggingar í dag til að kanna möguleika hans á því að komast í aðgerð erlendis. „Mér skildist á henni að ég ætti að setja mig í samband við lækni og fá vottorð hjá honum og sjúkratryggingar myndu þá kanna hvað hægt væri að gera í málinu, það virðist vera eina lausnin hjá mér í dag, annað er bara í lausu lofti og eins og staðan er á þessum biðlistum sé ég ekki að ég sé að fara að komast að hér á landi á næstunni,“ segir Rafn, vongóður um að komast í aðgerð erlendis, þar sem þó verði á brattann að sækja fyrir hann sem öryrkja nema sjúkratryggingar taki á sig allan kostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert