„Áhuginn hefur aldrei verið meiri“

Sigvaldi Björn Guðjónsson, Ýmir Örn Gíslason og Gísli Þorgeir Kristjánsson …
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Ýmir Örn Gíslason og Gísli Þorgeir Kristjánsson þakka áhorfendum fyrir stuðninginn eftir sigur gegn Hollandi á EM í Ungverjalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, telur að áhugi Íslendinga í aðdraganda stórmóts hafi aldrei verið meiri en nú, en HM karla hefst í Svíþjóð 11. janúar. 

Að minnsta kosti ef mið er tekið af miðasölunni á leikina og sölu á íslensku landsliðstreyjunni. Miðarnir sem HSÍ hafði til umráða á leiki Íslands í riðlinum í Kristianstad og leiki milliriðlinum í Gautaborg eru einfaldlega uppseldir. 

„Áhuginn hefur bara aldrei verið meiri. Það verður að segjast alveg eins og er. Það sem hefur farið í gegnum okkur, hvort sem það eru tölur vegna miðasölu eða í treyjasölu, hefur slegið öll met. Miðarnir sem við höfðum á leikina í Kristianstad og Gautaborg eru uppseldir,“ segir Róbert en bendir á að enn er hægt að kaupa miða í gegnum mótshaldarana. Eru þeir seldir í gegnum heimasíðu mótsins. „Við erum að beina fólki þangað því enn rignir yfir okkur fyrirspurnum.“

Stuðningsmenn Íslands á síðasta stórmóti í Ungverjalandi fyrir ári síðan.
Stuðningsmenn Íslands á síðasta stórmóti í Ungverjalandi fyrir ári síðan. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Fyrir liggur að Ísland leikur í riðlakeppninni gegn Portúgal 12. janúar og í framhaldinu gegn Ungverjalandi og Suður-Kóreu. Fara leikirnir fram í Kristianstad. Ef íslenska liðið kemst áfram í milliriðil eins og væntingar eru um þá leikur liðið í Gautaborg 18., 20. og 22. janúar. Tímasetningar og andstæðingar liggja skiljanlega ekki fyrir fyrr en riðlakeppninni lýkur. 

„Ég hef ekki upplýsingar um hversu margir stuðningsmenn Íslands hafa keypt miða á staðnum. Ég myndi skjóta á að tæplega þúsund Íslendingar verði á fyrstu tveimur leikjunum og í kringum fimm hundruð á þriðja leiknum,“ segir Róbert en stuðningsmenn sem fara frá Íslandi fara væntanlega í gegnum áætlanaflug til Kaupmannahafnar og þaðan til Kristianstad. 

Róbert segir að þrjá vélar muni fara frá Icelandair til Gautaborgar í milliriðilinn. „Í leikjunum í milliriðli gætu verið þrjú hundruð Íslendingar en þá koma vélarnar fá Icelandair og á síðustu tveimur leikjunum verða því líklega ríflega þúsund Íslendingar. En þetta eru tölur sem við erum að skjóta á núna.“

HSÍ þurfti að panta fleiri treyjur

HSÍ hefur verið með bláa landsliðstreyju til sölu fyrir jól og fyrir stórmótin í janúar. Hún er nú uppseld en þegar ljóst var hvert stefndi pantaði HSÍ fleiri treyjur. 

„Magnið sem við tókum fyrir jólin var svipað og fyrir jól 2021 og EM í Ungverjalandi 2022. Við pöntuðum því talsvert magn en treyjurnar eru uppseldar. Við munum fá pöntun til Kristianstad og aðra til Gautaborgar. Við munum selja á staðnum og reynum að koma treyjum til Íslands eftir atvikum. Treyjusalan fór fram úr öllum væntingum.“

Róbert Geir Gíslason fylgist með íslenska liðinu á EM í …
Róbert Geir Gíslason fylgist með íslenska liðinu á EM í Ungverjalandi þar sem kórónuveiran setti mark sitt á mótshaldið. Fyrir framan situr Ágúst Þór Jóhannsson aðstoðarþjálfari. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Meðbyrinn með íslenska liðinu er augljóslega mikill. Spurður um hvort stuðningurinn sé svipaður og var eftir Bjarmalandsförina til Peking árið 2008 segir Róbert að upplifunin sé svipuð: 

„Væntingarnar virðast vera svipaðar og þegar við vorum að berjast um verðlaun 2008 og 2010. Það er bara afar jákvætt því liðið er mjög gott eftir mikla uppbyggingu,“ segir Róbert Geir Gíslason í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert