Aukið eftirlit vegna Covid-bylgju í Kína

Undanfarnar vikur hefur Kína sent upplýsingar um afbrigði sem þar …
Undanfarnar vikur hefur Kína sent upplýsingar um afbrigði sem þar finnast í alþjóðlegan gagnabanka GISAID í meiri mæli en áður. Ekkert nýstárlegt afbrigði hefur komið fram í þessum gögnum. AFP

Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) hefur aukið eftirlitsstarfsemi sína vegna þeirra Covid-bylgju sem er komin upp í Kína og mun endurskoða áhættumat og aðlaga aðgerðir ef þörf krefur. Þetta kemur fram á vef embættis landlæknis.

Þar segir, að viðbrögð kínverskra stjórnvalda við Covid-19 faraldrinum 2020–2022 hafi einkennst af öflugum hindrunum gegn innkomu nýrra afbrigða, með minni áherslu á hlutverk örvunarbólusetningar og nýstárlegra bóluefna en í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Breytingar á þeim aðgerðum á seinni hluta árs 2022 leiddi til stórrar bylgju COVID-19 smita í landinu. Áreiðanlegar upplýsingar um fjölda COVID-19 tilfella, innlagnir á sjúkrahús og dauðsföll í Kína eru af skornum skammti. Þó er búist við miklum fjölda COVID-19 sýkinga þar og aukins álags á heilbrigðiskerfið á næstu vikum vegna lítils ónæmis íbúanna og tilslökunar á samkomutakmörkunum sem standa fyrir dyrum,“ segir á vef landlæknis.

Ekkert nýstárlegt afbrigði komið fram

Þá kemur fram, að undanfarnar vikur hafi Kína sent upplýsingar um afbrigði sem þar finnist í alþjóðlegan gagnabanka GISAID í meiri mæli en áður.

„Ekkert nýstárlegt afbrigði hefur komið fram í þessum gögnum, heldur ýmis ómíkron afbrigði sem eru nú þegar í umferð innan Evrópu og eru sem slík ekki ógn fyrir frekari veikindi í Evrópu að mati Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC). Að auki hafa íbúar í Evrópu innan Evrópusambandins (ESB) og evrópska efnahagssvæðisins (EES) tiltölulega háa tíðni fyrri sýkinga og bólusetninga, sem veitir vörn gegn alvarlegum veikindum, jafnvel þegar ný afbrigði koma fram,“ segir í tilkynningunni.

Jafnframt segir, að ECDC hafi aukið eftirlitsstarfsemi sína og muni endurskoða áhættumat og aðlaga aðgerðir ef þörf krefur.

Þá er bent á, að samkvæmt reglugerð ESB um alvarlega heilsuvá og för yfir landamæri, sem tók gildi 26. desember 2022, skuli aðildarríki hafa samráð sín á milli og við heilbrigðisöryggisnefnd framkvæmdastjórnar um viðbrögð við alvarlegri heilsuvá yfir landamæri, s.s. eftirliti með og viðbrögðum við nýjum afbrigðum Covid-19.

„Ísland er aðili að þessu samstarfi og mun taka mið af þeim tilmælum og ákvörðunum sem eru teknar á þeim vettvangi og aðlaga aðgerðir sem mælt er með að okkar aðstæðum.“

Sjá fréttatilkynningu ECDC þann 3. janúar 2023, um COVID-19 stöðuna í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert