Grindavíkurbær hefur verið dæmdur til greiðslu 3,7 milljóna í skaðabætur vegna sandfoks á bílastæði í eigu bæjarins fyrir framan íþróttastöðina Hópið, sem lengi var ómalbikað.
Var talið að sandfok hafi valdið tjóni á fasteign tveggja tjónþola, sem nam 3,4 milljónum, og ökutæki Fanndalslagna, sem nam 338 þúsund krónum. Ummerki hafi verið á lakki á hliðum ökutækisins sem verði aðeins skýrð af sandfoki.
Kröfðust tveir fyrrnefndu tjónþolarnir 29,3 milljóna króna vegna þrifa innan- og utanhúss og byggðu kröfu sína á vottorðum frá Veðurstofu Íslands, þar sem tilteknir voru dagar og tímabil frá 26. janúar árið 2012 til 21. október 2019. Samkvæmt því hefði þurft að þrífa innanhúss í samtals 287 daga.
Dómurinn taldi hins vegar ósannað að sandfok hafi orðið í öll þau skipti sem krafan byggði á. Þá hafi krafa um bætur vegna þrifa fyrnst á fjórum árum.
Var engu að síður fallist á að sandur og ryk hafi kallað á aukna vinnu tjónþolanna við þrif á fasteign sinni og bifreið en örðugt sé um sönnun á raunverulegu tjóni þess. Því voru bætur metnar að álitum og miðað við þrif einu sinni á mánuði innan- og utanhúss vegna sandfoks, var hún metin 3.406.000 krónur.
Dóminn má lesa í heild sinni hér.