Einangruð síðan á gamlársdag

Hjónin Ævar Rafn Marinósson og Margrét Eyrún Níelsdóttir hafa verið …
Hjónin Ævar Rafn Marinósson og Margrét Eyrún Níelsdóttir hafa verið einangruð ásamt börnum sínum og foreldrum Ævars á bæ sínum Tunguseli í Þistilfirði síðan á gamlársdag. Ljósmynd/Aðsend

„Það er allt kolstíflað í ánni. Það gerir svo mikið frost að það botnfrýs og svo fyllast gljúfrin af snjó. Stíflan nær sennilega eina 4-5 kílómetra upp árfarveginn,“ segir Ævar Rafn Marinósson bóndi í Tunguseli í Þistilfirði.

Krapastífla hefur gert það að verkum að Hafralónsá hefur flætt yfir veginn síðan á gamlársdag.

„Við erum í algjörri einangrun, fimm manna fjölskylda og svo eru foreldrar mínir hér einnig. Elsti sonur minn er reyndar ekki heima svo þetta snertir okkur sex,“ segir Ævar.

Hafralónsá flæðir yfir veginn vegna stíflunnar.
Hafralónsá flæðir yfir veginn vegna stíflunnar. Ljósmynd/Margrét Eyrún Níelsdóttir

Ekki gerst frá árinu 1981

Hann bendir á að þetta hafi ekki gerst með þessum hætti síðan árið 1981.

„Ég var að skoða dagbækur og það er meira en 41 ár síðan þetta gerðist síðast.“

Ævar hefur fundað reglulega með Vegagerðinni og oddvita sveitarfélagsins. Hann segir að reynt verði að fara með beltagröfu og reyna að ræsa þetta eitthvað fram.

Verkefnið er ekki einfalt og það þarf að passa að það myndist ekki of mikill þrýstingur á brúna þegar stíflan brestur.

Mikill snjór er á svæðinu og aðstæður erfiðar.
Mikill snjór er á svæðinu og aðstæður erfiðar. Ljósmynd/Margrét Eyrún Níelsdóttir

Ástandið erfitt viðureignar

„Það er komin beltagrafa á vettvang en hún hefur ekki enn getað athafnað sig vegna slæmra aðstæðna. Núna er verið að hlaða í og spá í hvað menn gera næst,“ segir Ævar.

Heimir Gunnarsson hjá Vegagerðinni segir í samtali við mbl.is að ástandið sé mjög erfitt viðureignar.

„Krapastíflan er mjög neðarlega í ánni, að mér skilst. Verktakinn á Þórshöfn er búinn að reyna að vinna á þessu en aðstæður leyfðu ekki frekari framkvæmdir þarna. Mér skilst á oddvitanum að stíflan í ánni sé svo neðarlega að hún sé öll að byggjast upp,“ segir Heimir.

„Við þessar aðstæður er það mjög erfitt ástand og við höfum engin tæki eða tól til að koma í veg fyrir það í þessu veðri, en björgunarsveitir og sveitastjórnin eru meðvituð um ástandið og eru tilbúin að grípa inn í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert