Eggert Eyjólfsson, sérfræðilæknir í bráðalækningum, segir ofurálag, skort á skipulagi og framtíðarsýn vera stærsta vandamálið á Landspítalanum. Hann kallar eftir heilbrigðisstefnu en ekki óskalista án áætlunar.
Eggert sagði upp störfum á bráðamóttöku spítalans í september síðastliðnum.
Í samtali við mbl.is segist hann munu sakna þess að vinna við það fag sem hann hafi starfað við síðastliðin 15 ár og valið sér sem ævistarf en fjölskyldan og líkamleg og andleg heilsa séu einfaldlega mikilvægari.
Hann segir vandann í heilbrigðiskerfinu mikinn og að ekki sé eðlilegt að fólk bíði sem dæmi í tvo daga á bráðamóttöku með lungnabólgu þar sem það þurfi nauðsynlega súrefni.
Eggert segir vandann tvíþættan; bráðavanda og skort á framtíðarsýn. Hann kallar eftir heilbrigðisstefnu annarri en þeirri sem skrifuð var í tíð Svandísar Svavarsdóttur, fyrrum heilbrigðisráðherra, sem líktist frekar óskalista en plani um hvernig framkvæma ætti hlutina.
„Það þarf að hugsa þetta annars vegar sem bráðavanda og hins vegar heildstæða sýn til framtíðar. Til þess að leysa bráðavandann sem steðjar að okkur núna tel ég að það þurfi fyrst og fremst að hækka laun hjúkrunarfræðinga til þess að fá þá aftur til starfa. Það eru fleiri hundruð hjúkrunarfræðingar úti í samfélaginu sem vinna ekki við hjúkrun þar sem þau fá ekki mannsæmandi laun fyrir það. Ég tel að það myndi leysa stóran hluta bráðavandans.
Það þarf síðan heildstæða sýn og framtíðarplan en við höfum beðið í 20 ár eftir að sjúkrahús rísi hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það verður ekki tekið í notkun fyrr en eftir a.m.k. 5-6 ár og fyrir mér er ekki hægt að hengja sig á að það muni leysa nokkurn hlut þar sem þessi viðbygging er of lítil,“ segir Eggert.
Ekki er hægt að mennta alla lækna hérlendis sem vantar í heilbrigðiskerfið og segir Eggert að ef við ætlum að viðhalda læknisfræðimenntuðu fólki á Íslandi þurfi breytingar að eiga sér stað.
„Við þurfum að átta okkur á því að við búum á norðurhjara veraldar, það er ískalt og myrkur og ef þú ætlar að laða fólk hingað til vinnu þá er ekki nóg að bjóða norðurljósin. Þú þarft að bjóða því samkeppnishæf laun, kost á húsnæði, almennileg lánakjör auk þess sem aðrir hagstjórnarlegir hlutir sem þurfa að vera í lagi.“