„Þetta eru alla vega fimm sérfræðilæknar með menntun í bráðalæknisfræði sem hafa hætt síðustu tvö árin, meðal annars vegna álags,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna, í samtali við mbl.is spurður út í uppsagnir á bráðamóttöku Landspítalans en Eggert Eyjólfsson sérfræðilæknir sagði upp í september, hefur nú látið af störfum og ræddi málin hér á vefnum í dag.
Theódór segir brotthvarf læknanna mikla blóðtöku fyrir unga sérgrein sem sé að marka sér spor á Íslandi. „Nýlega var ákveðið að opna fyrir sérnám í bráðalæknisfræði á Íslandi en margir sem hafa haft hug á bráðalæknisfræði hafa séð sæng sína upp reidda og skipt um kúrs, farið í aðrar sérnámsgreinar þegar þeir sáu hvernig ástandið var á spítalanum,“ heldur hann áfram.
Segir Theódór framtíð sérgreinarinnar undir og ástandið löngu komið í pattstöðu sem líkja megi við gamla rispaða plötu. „Þótt menn hafi verið að stíga fram með aðgerðir þá er það lítið og seint og fólk kiknar undan álaginu.“
Hvað telur formaðurinn þá að þurfi til svo landið fari að rísa?
„Það er alltaf verið að tala um þennan klassíska fráflæðivanda sem er reyndar hugtak sem mér hugnast illa en er engu að síður staðreyndin í dag. Þótt menn séu búnir að tala um, eins og nýr stjórnarformaður Landspítalans, að það sé búið að tryggja fjármagn til reksturs spítalans þá er það akkúrat bara á þessum tímapunkti,“ segir Theódór.
Spítalinn hafi hins vegar glímt við fjárskort, eða sparnað, í heilan áratug, allar götur frá bankahruni. Þar hafi þjónusta og mönnun verið dregin saman á meðan þjóðinni fjölgi og eins ferðamönnum sem sækja landið heim.
„Leguplássum á Landspítala hefur fækkað mikið síðustu tvo áratugi á meðan farið hefur verið meira í göngudeildarþjónustu og dagdeildarskurðaðgerðir þar sem sjúklingar koma og fara. Þar af leiðandi hefur rýmið fyrir sjúklinga sem krefjast innlagna dregist verulega saman á seinustu árum og staðið í stað síðasta áratuginn þótt við séum föst í viðjum hundrað prósent nýtingar,“ útskýrir Theódór.
Þannig rétt náist að halda dampi í venjulegu árferði, en um leið og takast þurfi á við árstíðabundna flensufaraldra, sem allir viti að séu alltaf handan hornsins, sé farið að setja fólk í legurými sem séu ekki til eða séu fullnýtt. „Þá verður þessi tappi á bráðamóttökunni, allt í einu erum við komin í þá stöðu að tvær til þrjár legudeildir eru í húsnæði bráðamóttökunnar við algjörlega óviðunandi aðstæður. Sjúklingar eru geymdir á göngunum hálfnaktir, þeir þurfa að fara á klósett og þeir þurfa að svara persónulegum spurningum,“ segir Theódór.
Við þetta myndist ófremdarástand og farið sé að troða fólki inn á yfirfullar deildir. Allt of fátt starfsfólk sé að sinna allt of mörgum sjúklingum. „Fólk finnur að það kemst ekki gegnum starfsdaginn, það fer þreytt og leitt af vöktum og finnst því ekki hafa klárað daginn, það er einhvern veginn alltaf að eltast við skottið á sér. Á þessu verður engin lausn fyrr en við losnum úr þessari hundrað prósent nýtingu.“
Theódór segir að allir viti, þótt enginn vilji ræða, að inni á spítalanum séu 120 einstaklingar sem hafi lokið þjónustu en komist hvorki lönd né strönd. „Þetta eru þeir einstaklingar sem krefjast framtíðardvalarúrræða, hjúkrunarrýmis, en eru bara þarna og ekki við aðstæður sem mér finnst bjóðandi. Þetta eru oft eldri borgarar sem hafa byggt upp þetta land og eiga betra skilið en að eyða síðustu dögunum inni á sjúkrastofnun, þeir ættu að vera inni á dvalarheimili eða hjúkrunarheimili við mun heimilislegri aðstæður,“ segir Theódór.
Þarna séu komin sömu rými og sjúklingar á biðlista eftir aðgerðum séu að bíða eftir, bendir Theódór á, og auglýsir eftir samtakamætti ríkis og borgar til að stíga fram og gera miklu meira miklu hraðar. „Hérna í Reykjavík skilst mér að standi til að opna nýtt hjúkrunarheimili 2026, fyrsta skóflustungan verður fyrst núna í ár. Það verða 140 rými en það er bara allt of lítið,“ heldur hann áfram.
Síðast hafi aðstæður á bráðamóttöku Landspítalans verið viðunandi í fyrstu bylgju heimsfaraldursins árið 2020. Þá hafi fólk haldið sig heima og ekki verið að leita á bráðamóttöku með óþarfavandamál. Allir með bráð vandamál sem krefjast úrlausnar eigi auðvitað að leita þangað en í faraldrinum hafi fólk sýnt því skilning að kerfið var þanið til hins ýtrasta. „Á þessum tíma opnuðu líka hundrað hjúkrunarrými á Sléttuvegi og allt í einu, fyrir hreina tilviljun, sköpuðust aðstæður þar sem við höfðum smá svigrúm,“ rifjar Theódór upp.
Með því að koma fólki í betri dvalarúrræði megi lækka hundrað prósent nýtingarhlutfallið niður í 85 prósent sem sé það hlutfall sem Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, ráðleggi og geri heilbrigðisstarfsfólki kleift að takast á við óvænta faraldra og bylgjur.
„Ég kalla eftir því samstarfi sveitarfélaga og ríkis að menn fari í samhent átak í dvalarúrræðum aldraðra til að reyna að leysa þessi mál. Það yrði okkur öllum til hagsbóta. Það myndi leysa biðlistana og þessi endurteknu neyðarköll Landspítalans auk þess að búa gamla fólkinu okkar mannsæmandi kjör síðustu ár ævinnar,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna, að síðustu.