Geymdir á göngunum hálfnaktir

Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna, kallar eftir samstilltu átaki …
Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna, kallar eftir samstilltu átaki ríkis og borgar til að vinna bug á vanda Landspítalans. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru alla vega fimm sér­fræðilækn­ar með mennt­un í bráðalækn­is­fræði sem hafa hætt síðustu tvö árin, meðal ann­ars vegna álags,“ seg­ir Theó­dór Skúli Sig­urðsson, formaður Fé­lags sjúkra­hús­lækna, í sam­tali við mbl.is spurður út í upp­sagn­ir á bráðamót­töku Land­spít­al­ans en Eggert Eyj­ólfs­son sér­fræðilækn­ir sagði upp í sept­em­ber, hef­ur nú látið af störf­um og ræddi mál­in hér á vefn­um í dag.

Theó­dór seg­ir brott­hvarf lækn­anna mikla blóðtöku fyr­ir unga sér­grein sem sé að marka sér spor á Íslandi. „Ný­lega var ákveðið að opna fyr­ir sér­nám í bráðalækn­is­fræði á Íslandi en marg­ir sem hafa haft hug á bráðalækn­is­fræði hafa séð sæng sína upp reidda og skipt um kúrs, farið í aðrar sér­náms­grein­ar þegar þeir sáu hvernig ástandið var á spít­al­an­um,“ held­ur hann áfram.

Seg­ir Theó­dór framtíð sér­grein­ar­inn­ar und­ir og ástandið löngu komið í patt­stöðu sem líkja megi við gamla rispaða plötu. „Þótt menn hafi verið að stíga fram með aðgerðir þá er það lítið og seint og fólk kikn­ar und­an álag­inu.“

Hvað tel­ur formaður­inn þá að þurfi til svo landið fari að rísa?

„Það er alltaf verið að tala um þenn­an klass­íska frá­flæðivanda sem er reynd­ar hug­tak sem mér hugn­ast illa en er engu að síður staðreynd­in í dag. Þótt menn séu bún­ir að tala um, eins og nýr stjórn­ar­formaður Land­spít­al­ans, að það sé búið að tryggja fjár­magn til rekst­urs spít­al­ans þá er það akkúrat bara á þess­um tíma­punkti,“ seg­ir Theó­dór.

Í viðjum hundrað pró­sent nýt­ing­ar

Spít­al­inn hafi hins veg­ar glímt við fjár­skort, eða sparnað, í heil­an ára­tug, all­ar göt­ur frá banka­hruni. Þar hafi þjón­usta og mönn­un verið dreg­in sam­an á meðan þjóðinni fjölgi og eins ferðamönn­um sem sækja landið heim.

„Legupláss­um á Land­spít­ala hef­ur fækkað mikið síðustu tvo ára­tugi á meðan farið hef­ur verið meira í göngu­deild­arþjón­ustu og dag­deild­ar­sk­urðaðgerðir þar sem sjúk­ling­ar koma og fara. Þar af leiðandi hef­ur rýmið fyr­ir sjúk­linga sem krefjast inn­lagna dreg­ist veru­lega sam­an á sein­ustu árum og staðið í stað síðasta ára­tug­inn þótt við séum föst í viðjum hundrað pró­sent nýt­ing­ar,“ út­skýr­ir Theó­dór.

Þannig rétt ná­ist að halda dampi í venju­legu ár­ferði, en um leið og tak­ast þurfi á við árstíðabundna flensu­far­aldra, sem all­ir viti að séu alltaf hand­an horns­ins, sé farið að setja fólk í legu­rými sem séu ekki til eða séu full­nýtt. „Þá verður þessi tappi á bráðamót­tök­unni, allt í einu erum við kom­in í þá stöðu að tvær til þrjár legu­deild­ir eru í hús­næði bráðamót­tök­unn­ar við al­gjör­lega óviðun­andi aðstæður. Sjúk­ling­ar eru geymd­ir á göng­un­um hálfnakt­ir, þeir þurfa að fara á kló­sett og þeir þurfa að svara per­sónu­leg­um spurn­ing­um,“ seg­ir Theó­dór.

120 sem kom­ast hvorki lönd né strönd

Við þetta mynd­ist ófremd­ar­ástand og farið sé að troða fólki inn á yf­ir­full­ar deild­ir. Allt of fátt starfs­fólk sé að sinna allt of mörg­um sjúk­ling­um. „Fólk finn­ur að það kemst ekki gegn­um starfs­dag­inn, það fer þreytt og leitt af vökt­um og finnst því ekki hafa klárað dag­inn, það er ein­hvern veg­inn alltaf að elt­ast við skottið á sér. Á þessu verður eng­in lausn fyrr en við losn­um úr þess­ari hundrað pró­sent nýt­ingu.“

Theó­dór seg­ir að all­ir viti, þótt eng­inn vilji ræða, að inni á spít­al­an­um séu 120 ein­stak­ling­ar sem hafi lokið þjón­ustu en kom­ist hvorki lönd né strönd. „Þetta eru þeir ein­stak­ling­ar sem krefjast framtíðardvalar­úr­ræða, hjúkr­un­ar­rým­is, en eru bara þarna og ekki við aðstæður sem mér finnst bjóðandi. Þetta eru oft eldri borg­ar­ar sem hafa byggt upp þetta land og eiga betra skilið en að eyða síðustu dög­un­um inni á sjúkra­stofn­un, þeir ættu að vera inni á dval­ar­heim­ili eða hjúkr­un­ar­heim­ili við mun heim­il­is­legri aðstæður,“ seg­ir Theó­dór.

Þarna séu kom­in sömu rými og sjúk­ling­ar á biðlista eft­ir aðgerðum séu að bíða eft­ir, bend­ir Theó­dór á, og aug­lýs­ir eft­ir sam­taka­mætti rík­is og borg­ar til að stíga fram og gera miklu meira miklu hraðar. „Hérna í Reykja­vík skilst mér að standi til að opna nýtt hjúkr­un­ar­heim­ili 2026, fyrsta skóflu­stung­an verður fyrst núna í ár. Það verða 140 rými en það er bara allt of lítið,“ held­ur hann áfram.

Síðast viðun­andi í fyrstu bylgju Covid

Síðast hafi aðstæður á bráðamót­töku Land­spít­al­ans verið viðun­andi í fyrstu bylgju heims­far­ald­urs­ins árið 2020. Þá hafi fólk haldið sig heima og ekki verið að leita á bráðamót­töku með óþarfa­vanda­mál. All­ir með bráð vanda­mál sem krefjast úr­lausn­ar eigi auðvitað að leita þangað en í far­aldr­in­um hafi fólk sýnt því skiln­ing að kerfið var þanið til hins ýtr­asta. „Á þess­um tíma opnuðu líka hundrað hjúkr­un­ar­rými á Sléttu­vegi og allt í einu, fyr­ir hreina til­vilj­un, sköpuðust aðstæður þar sem við höfðum smá svig­rúm,“ rifjar Theó­dór upp.

Með því að koma fólki í betri dvalar­úr­ræði megi lækka hundrað pró­sent nýt­ing­ar­hlut­fallið niður í 85 pró­sent sem sé það hlut­fall sem Efna­hags- og fram­fara­stofn­un Evr­ópu, OECD, ráðleggi og geri heil­brigðis­starfs­fólki kleift að tak­ast á við óvænta far­aldra og bylgj­ur.

„Ég kalla eft­ir því sam­starfi sveit­ar­fé­laga og rík­is að menn fari í sam­hent átak í dvalar­úr­ræðum aldraðra til að reyna að leysa þessi mál. Það yrði okk­ur öll­um til hags­bóta. Það myndi leysa biðlist­ana og þessi end­ur­teknu neyðar­köll Land­spít­al­ans auk þess að búa gamla fólk­inu okk­ar mann­sæm­andi kjör síðustu ár æv­inn­ar,“ seg­ir Theó­dór Skúli Sig­urðsson, formaður Fé­lags sjúkra­hús­lækna, að síðustu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert