Desember síðastliðinn var kaldasti desembermánuður á landinu síðan 1973, eða í næstum hálfa öld, og var meðalhiti í byggðum landsins -4,0 stig.
Í Reykjavík hefur desember ekki verið eins kaldur í rúm 100 ár, en desembermánuður árið 1916 var álíka kaldur og nú, að sögn Veðurstofunnar.
Mánuðurinn var áttundi kaldasti desembermánuður á landsvísu frá upphafi mælinga.
Þurrt var um mest allt land og víða mældist desemberúrkoman sú minnsta sem mælst hefur í áratugi.
Í Reykjavík var meðalhitinn í desember -3,9 stig og er það 4,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 4,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
Meðalhiti desembermánaðar hefur aðeins þrisvar sinnum verið lægri í Reykjavík, en það voru desembermánuðir áranna 1878, 1886 og 1880, þegar mun kaldara var.
Á Akureyri var meðalhitinn -5,3 stig, 4,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 4,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta var sjöundi kaldasti desembermánuður frá upphafi mælinga á Akureyri, og sá kaldasti síðan 1973.
Í Stykkishólmi var meðalhitinn -2,7 stig og -2,6 stig á Höfn í Hornafirði. Mánuðurinn var kaldasti desembermánuður frá upphafi mælinga á Hveravöllum þar sem meðalhitinn var -10,5 stig. Mælingar hófust þar árið 1965.
Óvenju sólríkt var í Reykjavík í desember. Sólskinsstundirnar mældust 51,0 í mánuðinum, sem er 38,4 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þetta er sólríkasti desembermánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 0,9, sem er rétt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.