„Síberíuástand“ sett strik í reikninginn

Aðeins brunarústir þar sem söluskálinn stóð. Í baksýn má sjá …
Aðeins brunarústir þar sem söluskálinn stóð. Í baksýn má sjá gistihús í eigu Ragnars. Ljósmynd/Aðsend

Ragnar Johansen, eigandi söluskálans sem brann á Hörgslandi í gær, segir að starfsfólk sitt hafi reynt að þíða vatnsinntök á öllum húsum á svæðinu síðan sjötta desember síðastliðinn. „Það er búið að vera það sem maður segir Síberíuástand á kuldanum,“ segir Ragnar, sem bætir við að veturinn sé sá erfiðasti sem hann muni eftir.  

Ragnar rekur fyrirtækið Ferðaþjónusta og sumarhús á svæðinu. Húsin eru alls 25 talsins, þar af 13 gistihús, hótel og fjögur einbýlishús.

Hann telur líklegt að eitthvað hafi verið gert vitlaust við þíðinguna og mögulega hafi hitarinn hitað of mikið og kveikt í húsinu. „Þetta er það sem fylgir úti á landsbyggðinni. Við höfum ekki svona inntök eins og í Reykjavík.“

Ragnar er staddur erlendis og hafa börnin hans tvö stjórnað aðgerðum síðan eldsvoðinn varð. Hyggur hann á heimferð eins fljótt og auðið er. 

Ljósmynd/Aðsend

Lyklarnir að húsunum brunnu

Söluskálinn sem brann var um 90 fermetrar og þar inni var mikið af búnaði, en þar hefur verið rekinn veitingastaður í mörg ár. Þar var einnig móttaka með tölvum, ásamt lyklum af öllum húsunum. „Það er allt brunnið. Við eigum ekki einu sinni lykla af húsunum,“ greinir hann frá, að vonum svekktur yfir stöðu mála.

Hann segir að uppbókað sé hjá honum og að eldsvoðinn setji ferðaplön úr skorðum hjá viðskiptavinum sínum. Annar veitingastaður í hans eigu tekur 70 manns og vonar Ragnar að málin leysist þannig.

Ljósmynd/Aðsend

Spurður hvort nýr skáli verði smíðaður í stað þess sem brann segir hann að teikningar séu til af stærra húsi og sennilega sé ódýrara að byggja annað. Það yrði þó ekki á nákvæmlega sama stað því undirstöðurnar séu ónýtar eftir eldinn.

Ragnar kveðst hafa byrjað með ferðaþjónustuna árið 2000 eftir að hafa hætt í útgerð. Vel hafi gengið, fyrir utan tímann þegar kórónuveirufaraldurinn gekk yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka