Skotsvæði á Álfsnesi lokað

Skotveiðimenn hafa æft sig í skotfimi í Álfsnesi.
Skotveiðimenn hafa æft sig í skotfimi í Álfsnesi. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins í Reykjavík frá júlí á síðasta ári um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis (Skotreyn) til rekstur skotvallar á Álfsnesi við Kollafjörð.

Úrskurðarnefndin hefur áður fellt úr gildi starfsleyfi fyrir umrætt skotæfingasvæði í september árið 2021 eftir að íbúar og landeigendur í nágrenni kærðu leyfisveitinguna. Var leyfið þá fellt úr gildi á þeim forsendum að starfsemin samræmdist ekki aðalskipulagi Reykja­víkur 2010-2030. 

Ákvörðun kærð aftur

Í júlí á síðasta ári samþykkti heilbrigðiseftirlitið að veita Skotreyn starfsleyfi með gildistíma til 31. októ­ber 2026. Var leyfið þá háð sértækum starfsleyfisskilyrðum fyrir starfsemi skotvallarins auk almennra starfsleyfis­skilyrða fyrir mengandi starfsemi. 

Leyfið var veitt eftir að búið var að framkvæma hljóðmælingar og aðrar athuganir á svæðinu og sýndu niðurstöður að  hávaði og önn­ur sú rösk­un sem af starf­inu gæti leitt væri und­ir viðmiðun­ar­mörk­um. 

Ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins var kærð á nýjan leik af landeigendum og íbúum á Álfsnesi í ágúst.  Jafn­­framt var þess krafist að hávaðamælingar heilbrigðiseftirlitsins sem fram komu í starfs­leyfinu yrðu ógildar og hljóðmælingar gerðar af óháðum aðila.

Landnotkun ekki breytt

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá föstudeginum 30. desember kemur fram að ekki liggi fyrir að landnotkun hafi verið breytt frá því að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp síðast.

Þá fari starfsleyfið auk þess í bága við ákvæði skipulagsreglugerðar um landnotkunarflokka en í þeirri reglugerð er ekki að finna heimild til að víkja frá gildandi landnotkun samkvæmt skipulagi. Með vísan til þess verði því að fella hið kærða starfsleyfi úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert