Tilraun til sviptingar á sjálfstæðum samningsrétti

Efling og Samtök atvinnulífsins fundar í húsi ríkissáttasemjara í dag. …
Efling og Samtök atvinnulífsins fundar í húsi ríkissáttasemjara í dag. Sólveig Anna, formaður Eflingar er fyrir miðju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var mætt í húsnæði Ríkissáttasemjara í dag ásamt fylgdarliði en samningafundur milli SA og Eflingar hófst klukkan 13. Hún segir samningsviljann hjá SA ekki vera til staðar og á þessum tímapunkti sé ekki hægt að segja annað en að verið sé að reyna að svipta félagið sjálfstæðum samningsrétti.

„Við búumst ekki við neinu því miður. Við höfum mætt á hvern einasta fund vel undirbúin með ríkulegan samningsvilja og komum með góða og einfalda kröfugerð. Auk þess höfum við lagt fram tvö tilboð þar sem við höfum komið verulega til móts við SA. Þetta hefur ekki skilað neinum árangri og er ömurlegt að verða vitni að því að samningsviljinn sé allur okkar megin og ekki til staðar þeirra megin,“ segir Sólveig.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Verkföll gríðarlega máttugt vopn

Spurð hvort það gangi að mæta til funda aftur og aftur án árangurs segir hún það ekki ganga til lengdar. Hún segir verkföll ekki vera eina vopnið en að allt muni skýrast betur eftir fundinn.

„Verkföll eru auðvitað ekki eina vopnið en það er gríðarlega máttugt vopn. Við erum búin að koma hérna, langstærsta félag verka- og láglaunafólks, á fund eftir fund og mætt þvermóðsku og miklum yfirgangi. Á þessum tímapunkti er ekki hægt að segja annað en að það sé verið að reyna að framkvæma tilraun sem snýst um að svipta okkur sjálfstæðum samningsrétti,“ segir Sólveig. 

Fjöldi Eflingar félaga mættu í húsnæði Ríkissáttasemjara.
Fjöldi Eflingar félaga mættu í húsnæði Ríkissáttasemjara. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert