Þjóðsögur herma að gelískumælandi stríðsdrottning að nafni Auður hafi verið á meðal þeirra fyrstu til að nema Ísland. Saga hennar er kjarni þeirrar kenningar sem nú ryður sér braut, um að skoskir og írskir keltar hafi leikið mun stærra hlutverk í sögu Íslands en áður var talið.
Á þessum orðum hefst umfjöllun breska dagblaðsins Guardian, sem birtist á vef þess í dag og hefur í kjölfarið vakið mikla athygli. Umfjöllunin er, þegar þetta er skrifað, í þriðja efsta sæti yfir vinsælasta efni vefsins í dag.
Þá Auði sem nefnd er þekkja Íslendingar sem Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, sem nam land í Dölum og bjó í Hvammi.
Til umfjöllunar er bókin Keltar eftir Þorvald Friðriksson, sem kom út á nýliðnu ári, og sú kenning sem þar er borin upp.
Í kenningunni, sem tekið er fram að sé umdeild, er dregin í efa sú viðtekna söguskýring að Ísland sé alfarið norrænt að uppruna og að því hafi verið komið á fót fyrir um 1.100 árum eftir útbreiðslu fólks frá Skandinavíu.
Þess í stað eigi Keltar mun meiri þátt í uppruna og tungumáli Íslendinga.
„Ég hef um árabil skoðað íslensk orð og örnefni, sem ekki virðast norræn og niðurstaðan er í bókinni,“ sagði Þorvaldur í samtali við Morgunblaðið í nóvember.
„Hún er nýmæli því menn hafa ekki ímyndað sér að svona hátt hlutfall orða í íslensku séu ekki norræn heldur gelísk, sem bendir til þess að hér hljóti að hafa verið töluð gelíska.“
Bókin skiptist í sjö efniskafla, um Kelta, norska og írska landnámsmenn, keltnesk áhrif hérlendis, tengingu við Færeyjar og Grænland, um goða og guði og týnda Íslandssögukafla. Loks er svo orðasafn upp á 31 síðu þar sem fjöldi íslenskra orða, t.d. um dýr og jurtir, örnefni, mannanöfn o.fl., er tengdur við keltnesku.
Lokaverkefni Þorvaldar í fornleifafræði, sem hann lærði í Svíþjóð, var um keltneskar byggingar á Íslandi, borghlaðin hús eins og til dæmis fiskbyrgi, fjárborgir og sæluhús. „Þessi byggingarstíll er mjög algengur á Írlandi, Skotlandi og eyjunum þar um slóðir en nánast óþekktur í Skandinavíu,“
Eftir að Þorvaldur flutti aftur til Íslands segist hann hafa tekið eftir öllum þeim orðum sem við notum í íslensku, orðum sem ekki eru til í dönsku, sænsku og norsku. Við nánari skoðun megi finna þau flest í gelískum orðabókum. „Þetta eru nöfn húsdýra; grundvallarorð í íslensku eins og strákur, stelpa, æska, elli; nöfn fiska, fugla og örnefni, nöfn fjalla, fjarða, flóa og stórbýla, sem eru óútskýranleg út frá norrænu, en flest auðskýranleg út frá gelísku.“
Í því sambandi bendir hann á viðtekna skýringu á eldfjallinu Kötlu. Katla á að hafa verið vinnukona á Þykkvabæjarklaustri og hún hafi drekkt vinnumanninum Barða. Þegar upp hafi komist um morðið hafi hún stungið sér ofan í eldfjallið og því heiti það Katla.
„Þetta er næsthættulegasta eldfjall Íslands og hefur eytt stórri byggð, sem var á Mýrdalssandi, en Katla þýðir sú er eyðir á gelísku. Þannig má rekja sig um allt land.“ Bolungarvík sé sögð heita eftir bolungi eða bolungum sem rekið hafi þar upp á sandinn.
„Þar er enginn reki og skrítið að víkin heiti eftir einhverju sem er ekki þar. En þar er Syðradalsvatn, sem Ósinn rennur úr sem Óshlíð heitir eftir og bolung á gelísku þýðir stöðuvatn.“
Gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf bókinni fjórar stjörnur af fimm.