Ungir karlmenn eru líklegri en ungar konur til að búa í foreldrahúsum, samkvæmt Hagstofu Íslands, en niðurstöður lífskjararannsóknar sýna fram á að alls hafi 55,5% ungs fólks á aldrinum 18 til 24 ára enn búið hjá foreldrum sínum árið 2021.
Hefur hlutfallið ekki verið lægra frá upphafi mælinga á Íslandi árið 2004 og er það langt undir því sem þekkist víða annars staðar í Evrópu en í ríkjum Evrópusambandsins voru 80,0% ungs fólks á aldrinum 18-24 ára enn í foreldrahúsum.
Samkvæmt Eurostat voru einungis Danmörk, Svíþjóð og Finnland með lægra hlutfall ungs fólks í foreldrahúsum í Evrópu.
Tæp 64% karlmanna á aldrinum 18 til 24 ára bjuggu í foreldrahúsum árið 2021 sem er þó nokkuð hærra en hlutfall kvenna í þeim aldurshópi sem búa enn heima, sem var 46,3%.
Konur á aldrinum 25 til 29 ára eru sömuleiðis líklegri en karlar í sama aldurshóp til að hafa flutt að heiman en hlutfallið milli kynjanna var þó nokkuð svipað árið 2021, ólíkt fyrri árum. Var hlutfall karla 23,6% samanborið við 21,1% hlutfall kvenna, en alls bjuggu um 22,5% enn hjá foreldrum sínum.
Ungt fólk á landsbyggðinni virðist fljótara að koma sér úr foreldrahúsum samanborið við ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu. Ef hópurinn er skoðaður út frá kyni má einnig sjá að hlutfall kvenna á landsbyggðinni sem bjuggu enn heima var áberandi lægst en einungis 24,9% þeirra áttu enn heima í foreldrahúsum.
Þá voru ungir karlar á höfuðborgarsvæðinu líklegastir til að búa enn hjá foreldrum sínum, eða 51,2% þeirra.