Valdníðsla og einræðistilburðir

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfyrirtækis Ljósleiðarans.
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfyrirtækis Ljósleiðarans. mbl.is/Ari Páll Karlsson

„Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum í tvígang farið fram á að málefni Ljósleiðarans og OR verði sett á dagskrá borgarstjórnarfundar, fyrst 20. desember síðastliðinn og síðan í dag, 3. janúar. Í bæði skiptin hafa borgarfulltrúar meirihlutans hafnað því með sérstakri atkvæðagreiðslu að setja umrætt málefni á dagskrá. Slíkt felur í sér bann við umræðum um málið í borgarstjórn.“

Þetta sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á borgarstjórnarfundi í gær og gerði þar málefni Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, að umtalsefni sínu.

Kaupverðið þrír milljarðar

Sagði Kjartan umræðubannið gróft brot á ákvæðum sveitarstjórnarlaga og samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar þar sem áskilið er að tekið verði á dagskrá hvert það málefni sem varðar hagsmuni sveitarfélagsins og hefði meirihlutinn í borgarstjórn enga heimild til að hafna veru löglega framborinna mála á fundardagskrá. Gerðist meirihlutinn með þessu sekur um valdníðslu og einræðistilburði.

Vísaði borgarfulltrúinn því næst til samnings Ljósleiðarans og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar um kaup á stofnneti Sýnar auk tíu ára þjónustusamnings. Næmi kaupverðið þremur milljörðum króna og væntur söluhagnaður Sýnar væri rúmlega tveir milljarðar.

„Laumuspil og leyndarhyggja hafa einkennt vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans í málinu. Borgarfulltrúar og stjórnarmenn meirihlutans í stjórn OR hafa hvað eftir annað neitað að tjá sig um málefni Ljósleiðarans þrátt fyrir að miklar umræður hafi átt sér stað síðan í september um kaup þessa dótturfyrirtækis OR á stofnneti Sýnar og þjónustusamning milli fyrirtækjanna,“ sagði Kjartan á fundinum.

Auðvelt að taka umræðuna

Ljóst væri að um væri að ræða margra milljarða króna áhættufjárfestingu utan skilgreinds starfssvæðis OR og væri eðlilegt að fram hefði farið umræða á vettvangi borgarstjórnar um slíkan viðskiptasamning og þá stefnubreytingu sem hann hefði í för með sér fyrir borgina. Margvíslegar upplýsingar hefðu komið fram í fjölmiðlum um væntanlegt samstarf Ljósleiðarans og Sýnar og auðvelt að taka pólitíska umræðu um málið í borgarstjórn á grundvelli þeirra.

Létu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks bóka eftirfarandi á fundinum í gær vegna málefna Ljósleiðarans og Orkuveitu Reykjavíkur:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla harðlega þeirri ákvörðun fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að banna að umræða um málefni Ljósleiðarans, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, yrði á dagskrá tveggja undanfarinna borgarstjórnarfunda, 20. desember og 3. janúar. Slíkt bann er gróft brot á ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga og 34. greinar samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar, sem kveður á um þann rétt borgarfulltrúa, að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni sem varðar hagsmuni sveitarfélagsins.

Meirihlutinn hefur enga heimild til að hafna því að löglega framborið mál sé sett á dagskrá borgarstjórnarfundar. Engin fordæmi eru fyrir slíku umræðubanni í borgarstjórn Reykjavíkur. Með því gerist meirihlutinn sekur um valdníðslu og einræðistilburði.

Laumuspil og leyndarhyggja hafa einkennt vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans í málinu. Borgarfulltrúar og stjórnarmenn meirihlutans í stjórn OR hafa hvað eftir annað að neitað að tjá sig um málefni Ljósleiðarans þrátt fyrir að umfangsmiklar og upplýsandi umræður hafi átt sér stað síðan í september um kaup þessa dótturfyrirtækis OR á stofnneti Sýnar og þjónustusamning milli fyrirtækjanna. Ljóst er að umrædd ákvörðun er mikils háttar enda um að ræða margra milljarða kaup og fjárfestingu utan skilgreinds starfsvæðis OR.

Mikilvægt er að fram fari umræða á vettvangi borgarstjórnar um þennan viðskiptasamning og þá stefnubreytingu, sem hann hefur í för með sér fyrir Ljósleiðarann, OR og Reykjavíkurborg. Tilgangurinn með umræðubanni er greinilega sá að koma í veg fyrir umræðu, sem meirihlutanum finnst óþægileg, þ.e. um stórfellda lántöku Ljósleiðarans og áhrif hennar á fjárhagsáætlanir Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar. Þá er ljóst að borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar meirihlutans reyna að firra sig ábyrgð á málinu en varpa henni þess í stað á stjórn OR eftir því sem kostur er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert