Ríkið og Reykjavíkurborg hafa einsett sér að byggja 16.000 íbúðir á næstu tíu árum með húsnæðissáttmála, sem undirritaður var í ráðherrabústaðnum í dag. Stærstur hluti þeirra mun rísa í austurborginni.
Á landsvísu er áætlað að byggja 35 þúsund íbúðir á sama tímabili samkvæmt rammasamningi ríkis og sveitarfélaga og verða nýjar íbúðir í Reykjavík því um 45% af þeim fjölda.
Ártúnshöfði er stærsta svæðið í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar, þar sem markmiðið er að reisa 6.000 íbúðir en Laugardalur og nærliggjandi svæði, Háaleiti og Bústaðir og Vatnsmýrin eru einnig ofarlega á blaði.
„Þetta skref sem við erum að taka í dag, með að gera þennan samning við fyrsta sveitarfélagið sem er jafnmetnaðarfullt og raun ber vitni, sýnir að verkefni okkar byrjar af krafti,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, sem undirritaði sáttmálann ásamt Degi Eggertssyni borgarstjóra og Hermanni Jónssyni, forstjóra Húsnæðismálastofnunar.
„Þetta er til þess að sveitarfélögin tryggi nægilega margar lóðir í byggingarhæfu ástandi svo hægt sé að byggja þennan fjölda,“ segir hann og bætir við að á móti lofi stjórnvöld fjárhagslegum stuðningi en einnig að lofa einföldun á regluverki, þ.e. skilvirkara regluverki á skipulags- og byggingarsviðinu ásamt öðru.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur samninginn munu fela í sér heilbrigðari húsnæðismarkað á Íslandi til frambúðar, þar sem fleiri tekjuhópar muni eiga færi á að festa kaup á fasteign.
„Þetta er gríðarlega mikilvægt og risastór áfangi. Ég hef lengi talað fyrir því að það þyrfti húsnæðissáttmála. Langtímasýn með alvöru lausnum þar sem verið væri að tryggja stöðugt og gott framboð fyrir alla tekjuhópa. Það er nálgunin,“ segir hann og bætir við: „Mér finnst þetta fela í sér heilbrigðari húsnæðismarkað á Íslandi til frambúðar.“
Stefnt er að því að byggja allt að 2 þúsund íbúðir á ári á næstu 5 árum eða á meðan verið er að mæta uppsafnaðri þörf og skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði.Markmiðin taka mið rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á landsvísu á fyrrgreindu tímabili, til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf.
Ártúnshöfði er stærsta svæðið í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar, þar sem markmiðið er að reisa 6.000 íbúðir, Laugardalur og nærliggjandi svæði með 3.500 íbúðir, Háaleiti og Bústaðir með yfir 2.000 íbúðir og Vatnsmýrin með tæplega 2.200 íbúðir. Þá eru 2.484 íbúðir í byggingu í Reykjavík, samkvæmt húsnæðisáætlun Reykjavíkur.