Mengun af völdum köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) hefur sjaldan eða aldrei verið meiri í Reykjavík eins og síðastliðinn sólarhring. Styrkur köfunarefnisdíoxíðs fór ellefu sinnum yfir klukkustundar heilsuverndarmörk samkvæmt mæli við Grensásveg í gær, en það hefur ekki gerst síðan klukkustundarmörkin voru sett árið 2016.
Þetta segir Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.
„Langvarandi hár styrkur eins og var í gær, þetta er ekki algengt. Það var eiginlega alveg logn í gær og það eru kjöraðstæður fyrir þessa mengun,“ segir Svava.
Köfnunarefnisdíoxíð er gas sem er í útblæstri bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og er mengunin því eingöngu tilkomin vegna útblásturs, ekki svifryks. Í gær sendi borgin frá sér tilkynningu þar sem fólk var hvatt til að draga úr notkun einkabílsins, nýta frekar almenningssamgöngur eða vinna fjarvinnu. Þá voru þeir sem eru viðkvæmir í öndunarfærunum hvattir til að forðast útivist og áreynslu við stórar umferðargötur.
Mengun af völdum köfnunarefnisdíoxíðs er eðlilega mest þegar umferðin er þyngst; á morgnana og síðdegis, en þegar kalt og stillt er í veðri verður mengunarástandið viðvarandi.
„Núna er þannig ástand í borginni að við erum með mjög hægan vind og frost og þá er loftmassinn yfir borginni stöðugur. Þá fer þetta gas ekki, það fýkur ekkert í burtu heldur safnast bara upp. Þess vegna erum við að sjá svona háan styrk,“ útskýrir Svava.
„Það er leiðinlegt fyrir okkur að bestu vetrardagarnir okkar, þar sem er ekki rok og fallegir dagar gjarnan, þá því miður erum oft með svo háar mengunartölur.“
Það má því segja að bestu vetrardagarnir séu oft verstir til útvistar.
„Þegar þessar ákveðnu veðuraðstæður skapast, sem loka mengunina yfir borginni, þá í rauninni ættum við ekki að vera að stunda útvist. Sérstaklega ekki í nágrenni við stórar umferðargötur. Og alls ekki vera með áreynslu því þá dregurðu meira loft ofan í lungun og færð meira af mengunarefnunum inni í kerfið.“
Svava segir að þau sem helst verði fyrir óþægindum við þessar aðstæður séu einstaklingar sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, börn og aldraðir.
„En þegar gildin eru svona há, klukkustundarmörkin fyrir þetta efni eru 200 míkrógrömm á rúmmetra og við fórum ellefu sinnum yfir þessi mörk í gær samkvæmt mælinum við Grensásveg, þá geta meira að segja fullfrískir einstaklingar fundið yfir óþægindum.“
Fólk getur þá fundið fyrir ertingu í öndunarvegi og augum og hætta á öndunarfærasýkingum eykst, samkvæmt yfirlitsgrein í Læknablaðinu. Langtímaútsetning getur jafnvel stuðlað að astma. Þá hafa rannsóknir sýnt að aukning útsetning geti leitt til versnandi hjarta- og æðasjúkdóma. Langvarandi útsetning á köfnunarefnisdíoxíði hefur einnig verið tengd hærri dánartíðni vegna heilablóðfalla.
Mengun af völdum gassins má bæði sjá og finna, sem ætti að gera fólk enn meðvitaðra þegar ástandið er slæmt.
„Fólk hefur kannski tekið eftir því að það er svolítið römm lykt í nágrenni við stórar umferðargötur á morgnanna. Það er í rauninni út af þessu mengunarefni,“ segir Svava.
Þá megi líka sjá brúna rönd yfir borginni þegar horft er til Reykjavíkur frá Kjalarnesi.
„Þannig sjáum við hvað mengunin er mikil, þegar við sjáum þessa brúnu slikju þá við vitum við að hún er há.“
Þó það sé aðallega mengun af völdum köfnunarefnisdíoxíðs sem er að hrella borgarbúa núna, þá voru mældust einnig hækkuð gildi fyrir brennisteinsvetni í morgun, en um er að ræða mengun frá jarðhitavirkjunum. Svava segir mengunina núna koma frá Nesjavallavirkjun þar sem mjög öflugur hreinsibúnaður sé í Hellisheiðarvirkjun.
„Þegar það eru svona froststillur og austanátt eins í morgun, þá berst þessi mengun líka inn til borgarinnar. Fólk getur líka hafa fundið þá lykt í morgun í bland við annað.“
Eins og veðurspáin lítur út núna má gera ráð fyrir að mengunarástand af völdum köfunarnefnidíoxíðs verði viðvarandi næstu daga.
„Það fer ekkert að bæta í vind fyrr en um helgina og þá fer líka frostið. Þá breytast aðstæður og við vonandi losnum við þetta. Við erum enn að menga með bílaumferðinni okkar, en loftgæðin okkar verða betri.“