Efling fær vikufrest

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samninganefnd Samtaka atvinnulífsins lagði fram kjarasamningstilboð til stéttarfélagsins Eflingar í gær. Tilboðið er samhljóða samningi SA og Starfsgreinasambandsins.

SA hefur nú birt upp úr tilboðinu á vefsíðu sinni. Gert er ráð fyrir afturvirkni frá 1. nóvember síðastliðnum.

Samtök atvinnulífsins gera aftur á móti að forsendu fyrir afturvirkni kjarasamningsins að hann verði undirritaður ekki seinna en 11. janúar, eða eftir eina viku. 

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lét hafa eftir sér í gær að samninganefnd Eflingar kæmi saman á sunnudag og undirbúa gagntilboð til SA. Sólveig sagði tilboðið að mestu byggt á samningi SA og Starfsgreinasambandsins. Hún sagði Eflingu ítrekað hafa gert SA ljóst að koma þurfi til móts við Eflingu með öðrum hætti en hefur verið gert.

Þegar hækkað um 35 þúsund krónur á síðasta ári

Tilboð SA til Eflingar gerir ráð fyrir að Samtök atvinnulífsins séu áfram til viðræðna við Eflingu um aðlögun innan kostnaðarramma samnings SA við SGS. Býður SA Eflingu að samningurinn muni gilda afturvirkt frá 1. nóvember síðastliðinn en forsenda þess sé að hann verði undirritaður ekki seinna en 11. janúar næstkomandi.

Ein af forsendum kjarasamningstilboðs SA til Eflingar er sögð vera að kauptaxtar kjarasamnings Eflingar hafi þegar hækkað um rúmar 35 þúsund krónur á síðasta ári og að lægsti taxti Eflingar hafi hækkað um tæp 11% fyrr á árinu 2022 og meðaltaxti um rúm 10%. Þannig segir SA taxta hafa hækkað umfram verðbólgu á árinu 2022.

Vilja ræða aðlögun að stöðu Eflingarfólks

Samtök atvinnulífsins segjast vera tilbúin að ræða aðlögun kjarasamningsins að stöðu Eflingarfólks, innan kostnaðarramma og meginlína kjarasamnings SA við SGS.

SA sér þó ekki málefnalegar forsendur fyrir greiðslu sérstaks framfærsluálags á félagssvæði Eflingar á höfuðborgarsvæðinu, Kjós, Hveragerði, Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi eins og Efling hefur kallað eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka