Arna McClure yfirlögfræðingur Samherja hefur leitað til dómstóla í þeim tilgangi að fá rannsókn á hendur sér dæmda ógilda og að hún verði felld niður. Arna hefur haft réttarstöðu sakbornings í rúm þrjú ár í rannsókn héraðssaksóknara vegna meintra brota Samherja í Namibíu. Hún hefur ekkert heyrt frá embættinu í 17 mánuði og henni hefur aldrei verið kynnt hvaða ætluðu refsiverðu háttsemi hún liggur undir grun um.
Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður Örnu, segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi fyrir hönd hennar óskað eftir því síðastliðið vor, þegar um 2½ ár var liðið frá upphafi rannsóknarinnar, að embættið felldi niður rannsóknina á hendur henni enda hafi öll gögn og framburðir bent til þess að hún hefði ekkert til saka unnið.
Þá kemur einnig fram í greinargerðinni að sakborningurinn Jóhannes Stefánsson breytti framburði sínum hvað Örnu varðar á þann veg að hann dró mjög í land með ætlaða aðkomu hennar.
Þá byggist greinargerðin jafnframt á því að Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, sé vanhæfur til að til að annast rannsóknina þar sem efast megi um hlutleysi hans. Í greinargerð sem lögð hefur verið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, og Morgunblaðið hefur undir höndum, er rakið nokkuð ítarlega hvernig sérvalin málsgögn voru unnin í hendur embættisins, meðal annars af bróður Finns sem starfar sem blaðamaður á Stundinni.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu.