Spá 80% fjölgun gesta með skemmtiferðaskipum

Skemmtiferðaskip á Akureyri.
Skemmtiferðaskip á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Gera má ráð fyrir um helmingi fleiri komum skemmtiferðaskipa í íslenskar hafnir á þessu ári heldur en í fyrra og að farþegum fjölgi um allt að 80% og verði rúmlega 800 þúsund á árinu.

Það stefnir því í afgerandi metár í þessari tegund ferðaþjónustu, að því er kemur fram í nýrri greiningu Ferðamálastofu.

Upplýsinga var aflað hjá sex þeirra hafna sem eru stærstar í komum skemmtiferðaskipa. Þær tóku á móti um um 92% farþegafjölda slíkra skipa síðasta árið fyrir Covid, þ.e. 2019.

Áætlað er að komur skemmtiferðaskipa í þessar sex hafnir verði 1.026 talsins á þessu ári, en þær voru 678 í fyrra og 679 árið 2020. 

Graf/Ferðamálastofa

Samkvæmt greiningunni er áformað að farþegar verði 812 þúsund, en af þeim komi 300 þúsund til Reykjavíkur og um 250 þúsund til Akureyrar, Grímseyjar eða Hríseyjar. Var fjöldi gesta í fyrra 448 þúsund og 511 þúsund árið 2020.

Graf/Ferðamálastofa

„Sé litið nokkur ár aftur í tímann, eða til ársins 2017, má glögglega sjá hversu mikill vöxturinn hefur verið. Þannig gerir áætlun yfirstandandi árs ráð fyrir 115% fjölgun skráðra farþega og 103% fleiri skipakomum en árið 2017. Meðalstærð skemmtiferðaskipa sem hingað koma hefur einnig verið að aukast," segir í tilkynningu.

Hafnirnar sex gera ráð fyrir beinum tekjum upp á tæpa 2,4 milljarða á árinu. Áætlaður tekjuvöxtur milli áranna 2022 og 2023 er 42% . Engar óbeinar tekjur eða tekjur annarra aðila innanlands eru inni í þessum tölum, svo sem tekjur veitingastaða og ferðaþjónustufyrirtækja.

Skemmtiferðaskip í Sundahöfn.
Skemmtiferðaskip í Sundahöfn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert