Akureyrarbær býður 350 flóttamenn velkomna

Samningurinn var undirritaður í dag í Ráðhúsi Akureyrarbæjar af Nichole …
Samningurinn var undirritaður í dag í Ráðhúsi Akureyrarbæjar af Nichole Leigh Mosty, forstöðukonu Fjölmenningarseturs, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumálaráðherra og Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Það er samfélagsleg skylda okkar að taka eins vel og kostur er á móti fólki á flótta og mjög mikilvægt að það sé gert með skynsamlegum hætti og í traustu samstarfi við ríkisvaldið,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, en bæjarfélagið tekur nú á móti 350 flóttamönnum.

Ásthildur, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Nichole Leigh Mosty, forstöðukona Fjölmenningarseturs undirrituðu í dag samning um samræmda móttöku flóttafólks á Akureyri.

Móttökusveitarfélag fyrir flóttafólk

Samningurinn kveður á um að Akureyrarbær taki í samstarfi við stjórnvöld á móti allt að 350 flóttamönnum fram til 31. desember 2023. Akureyrarbær er eitt af þeim bæjarfélögum sem hefur undanfarin ár verið móttökusveitarfélag fyrir flóttafólk og bærinn hefur verið þátttakandi í tilraunaverkefni um samræmda móttöku flóttafólks.

Fagna fjölbreytileikanum

 Verkefnið snýst um fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og snýst um að tryggja samfellda og jafna þjónustu. Fólkið fær aðstoð til að vinna úr áföllum og tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, með atvinnu, samfélagsfræðslu og íslenskunámi.

„Ég fagna fjölbreytileikanum og veit að fólk hvaðanæva að getur auðgað samfélagið og víkkað sjóndeildarhring okkar. Við bjóðum fólkið ævinlega velkomið og vonum að því muni farnast vel á Akureyri,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert