Rútubílstjórinn sem festi rútu Hópbíla í tvígang á jóladag eftir að hafa virt lokanir að vettugi, hefur réttastöðu sakbornings í rannsókn lögreglu vegna málsins. Þetta staðfesti Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi í samtali við mbl.is. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Þess ber þó að geta að ekki er óvanalegt að bílstjórar fái stöðu sakbornings þegar um umferðaróhapp er að ræða en að sögn Odds á það við í flestum umferðarslysum sem lögregla kemur að. Hefur það lítið um rannsóknina að segja.
Rannsókn lögreglu er á lokastigum en hún lýtur að því hvort fyrirmælum lögreglu hafi verið fylgt á jóladag þegar að bílstjórinn virti ekki lokanir á þjóðveginum í tvígang. Málið er á leiðinni til ákærusviðs en er ekki komið þangað.
Rútan, sem var með 30 erlenda ferðamenn innanborðs, fór fyrst framhjá lokunum sem endaði með því að bílstjórinn festi hana við Pétursey í Mýrdal og þveraði þjóðveg 1.
Eftir að búið var að losa rútuna, og hún komin á áfangastað, fór bílstjórinn aftur í leyfisleysi um lokaðan veg og festi hópbifreiðina á ný.